Heilbrigðisþjónusta á landsbyggðinni hefur oft verið til umræðu í samtölum mínum við íbúa á Suðurlandi að undanförnu. Sérhæfð læknisþjónusta hefur af ákveðnum öryggissjónarmiðum verið meira og minna færð til höfuðborgarinnar en það má þó ekki verða til þess að þjónusta við íbúa á landsbyggðinni skerðist.
Þegar alvarleg veikindi eða slys ber að garði skiptir hver mínúta sköpum. Á stóru landsvæði eins og á Suðurlandi þarf hjálp að berast hratt og örugglega þannig að koma megi þeim sem hjálpar eru þurfi undir læknis hendur svo fljótt sem verða má. Í slíkum aðstæðum er hver mínúta í bið eftir sjúkrabíl lengi að líða.
Síðan ég tók sæti í bæjarstjórn Vestmannaeyja höfum við oft rætt þörfina fyrir sérhæfða sjúkraþyrlu á Suðurlandi. Verkefnið er vissulega spennandi og hægt að horfa til nágranna okkar t.a.m. í Noregi þar sem „fljúgandi sjúkrabílar“ hafa verið notaðir í nokkur ár með góðum árangri og stytta þeir viðbragðstíma til muna á stórum og víðfeðmum landsvæðum.
Að mínu viti er málið risastórt hagsmunamál allra íbúa í kjördæminu, hvort sem þeir búa í þéttbýli eða dreifbýli. Sömuleiðis vitum við vel að stór hópur þeirra ferðamanna sem kemur til Íslands keyra um vegi á Suðurlandi og getur þá ýmislegt komið upp eins og dæmin sanna. Þá verður að vera hægt að tryggja það að hjálp berist fljótt.
Þrátt fyrir að nokkrir þingmenn hafi sýnt málinu áhuga hefur lítið gerst í málinu. Verkefnið er stórt en algert lykilatriði til þess að tryggja almennilega öryggi íbúa Suðurlands og aðgengi þeirra að bráðaþjónustu. Við verðum að bregðast við stöðunni og koma verkefninu á fót. Full þörf er á því að gera betur og tryggja ásættanlegt aðgengi íbúa á landsbyggðinni að bráðaþjónustu með öryggi íbúa að leiðarljósi.
Njáll Ragnarsson
Höfundur er bæjarfulltrúi og formaður bæjarráðs í Vestmannaeyjum og gefur kost á sér í 3. – 4. sæti í prófkjöri Framsóknarflokksins þann 19. júní nk.