Brúarsmiðurinn

Okkur hefur verið tíðrætt um meintar vanáætlanir á hinum ýmsu þáttum tengdum nýrri Ölfusárbrú. Í greinarskrifum á Vísir.is í september fór undirrituð vel yfir þær áætlanir Vegagerðarinnar sem liggja að baki brúarsmíðinni.

En eins og vill verða þá tók Ríkisábyrgðarsjóður fyrirliggjandi áætlanir og gerði þær að sínum sem skilaði þeim vanda að til þess að tryggja áframhaldandi framkvæmd þá þurfti að fara til þingsins og óska eftir aukinni fjárheimild inn í verkefnið sem var og gert.

Nú á dögunum fór brúarsmiðurinn Sigurður Ingi Jóhannsson, fjármálaráðherra með frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum vegna fjárlaga fyrir þingið, eins og honum einum er lagið þá gekk maðurinn til verka og leysti þann hnút sem upp var kominn.

Gefin er heimild fyrir því að ríkissjóður stígi inn með skuldbindingu vegna útboðs á hringvegi norðaustan Selfoss og brú yfir Ölfusá gegn því að gjaldtaka af umferð um hana standi undir kostnaði í heild eða að hluta eða að lágmarki 50%. Það er vissulega gert ráð fyrir útgjöldunum í samgönguáætlun og fjárheimild aflað fyrir þeim í fjármálaáætlun og fjárlögum. Þessi gjöld eru útskýrð á þann hátt í frumvarpinu að framlag þetta úr ríkissjóði mun taka mið af þeirri umferð sem uppá vantar til að tryggja fjárhagslega sjálfbærni verkefnisins. Þetta er allt gert til þess að bregðast við þeirri stöðu sem upp var komin með framkvæmdina og til að tryggja að hægt sé að mæta hugsanlegum kostnaði sem veggjöld standa mögulega ekki undir skv. áætlunum Ríkisábyrgðarsjóðs.

Enn og aftur er það á vakt Framsóknar að málin eru leidd til lykta og framkvæmdir hefjast á samfélagslega mikilvægum innviðum hér á landi. Höfum það hugfast!

Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir
Þingmaður Framsóknar í Suðurkjördæmi

Fyrri greinHvetur samningsaðila til að leita lausna sem fyrst
Næsta greinGuðbrandur leiðir lista Viðreisnar