Eftir að hafa legið undir feldi í langan tíma hef ég komist að þeirri niðurstöðu að ég gæti gert gagn á Alþingi og þess vegna býð ég mig fram í 1.-4. sæti á framboðslista Samfylkingar hér í Suðurkjördæmi.
Ég er kommakrakki úr Hveragerði, félagshyggja og jöfnuður eru mér í blóð borin og ég reyni alltaf að breyta af heiðarleika og sanngirni. Betur get ég ekki lýst mér, þannig finnst mér ég vera. Ég er viðskiptafræðingur og kerfisfræðingur, með svæðisbundið leiðsögumannapróf og meirapróf. Hef vasast í ýmsu gegnum tíðina en frá árinu 2003 hef ég rekið bókhaldsstofuna Yfirlit. Ég á þrjár dáindisfríðar dætur, tvo dóttursyni og einn hund.
Í tæp tíu ár hef ég búið við þau forréttindi að fá að vinna náið með allskonar fólki sem er að lifa drauma sína, skapa sér og sínum atvinnu og jafnvel fleirum. Byggja upp og fóstra mannvænleg fyrirtæki sem hvert og eitt er mikilvægur hlekkur í okkar samfélagi. Atvinnumál, nýsköpun, stuðningur við frumkvöðla og heilbrigt umhverfi fyrir fyrirtæki skipta miklu máli og þar vil ég leggja hönd á plóg. Í heilbrigðu umhverfi felst aðgangur að menntuðu og góðu vinnuafli, eðlilegur aðgangur að fjármagni með viðráðanlegum og fyrirsjáanlegum vaxtakostnaði og réttlátu skattkerfi.
Samfylkingin er eini flokkurinn sem hefur trúverðuga atvinnustefnu og eini flokkurinn sem boðar raunverulegt og heilbrigt samkeppnisumhverfi fyrirtækja. Samfylkingin hefur skilning á mikilvægi menntunar og síðast en ekki síst er Samfylkingin eini flokkurinn sem berst fyrir inngöngu Íslands í Evrópusambandið en einungis þannig verður aðgengi okkar og endurgjald fyrir fjármagn eðlilegt og fyrirsjánlegt.
Í silfurskeiðinni minni var kennsla um samfélagslega ábyrgð, samúð og réttlæti og þess vegna á ég erindi á Alþingi.
Bryndís Sigurðardóttir