Byggjum sterkara samfélag á réttlæti

Í nútímasamfélagi er oft gert ráð fyrir að kapítalismi sé lausn alls vanda. Hugmyndin um að einstaklingshyggja og samkeppni sé lausn er í raun mótsögn við undirstöður sterks samfélags. Ég tel að við eigum að hafna þeirri hugsun og í staðinn einblína á gildi eins og samstöðu, réttlæti og umhyggju.

Velferðarsamfélagið okkar er grundvöllur lífsgæða á Íslandi. En það er undir stöðugri ógn, bæði í formi niðurskurðar og einkavæðingar. Í stað þess að reyna að bæta kerfið vilja sumir loka því og bjóða þjónustuna út. Slík nálgun grefur undan samfélagslegri ábyrgð og leiðir oft til aukins ójafnaðar. Við verðum að standa vörð um opinbera þjónustu og tryggja að hún sé bæði aðgengileg og réttlát fyrir öll.

Fjármögnun velferðarkerfis byggir á réttlátri skattheimtu. Það þarf að tryggja að auðlindir okkar skili þjóðinni arði og að fjármagnstekjur séu skattlagðar á sanngjarnan hátt. Eignasöfnun örfárra einstaklinga á ekki að njóta undanþága. Það eru ekki róttækar breytingar, þær eru einfaldlega réttmætar. Við þurfum líka að horfa til framtíðar með því að fjárfesta í grænni nýsköpun og skapa störf sem byggja á sjálfbærni. Það eru ekki andstæður heldur samverkandi markmið.

Jöfnuður er undirstaða réttláts samfélags. En jöfnuður næst ekki af sjálfu sér, hann krefst stefnu sem horfir til heildarinnar. Við þurfum að leggja áherslu á að styrkja jaðarsetta hópa, efla menntun og heilbrigðisþjónustu og vernda náttúruna. Það er verkefni sem krefst sameiginlegrar ábyrgðar og það krefst þátttöku okkar allra.

Ég trúi því að betra samfélag sé mögulegt. Það byggist á réttlæti, samstöðu og því að öll, óháð stöðu eða uppruna, fái að njóta sömu tækifæra. Með sameiginlegu átaki getum við skapað slíkt samfélag fyrir komandi kynslóðir. Við skulum standa saman og byggja framtíð sem byggir á jöfnuði, manngæsku og félagslegu réttlæti.

Þormóður Logi Björnsson
Skipar 3. sæti á lista Vinstrihreyfingar græns framboðs í Suðurkjördæmi

Fyrri greinLeiðtogakappræður á Sviðinu
Næsta greinHraðakstur áberandi í dagbók lögreglu