Dr. Sigurður Árni: Gleðilega kirkju!

Þjóðkirkjan er á tímamótum og kosning biskups í mars verður öðru vísi en allar kosningar biskupa hingað til.

Það verða ekki aðeins prestar sem kjósa, heldur meira en 500 manna hópur ábyrgðarfólks í kirkjunni. Stærsti hluti kjörmana eru formenn sóknarnefnda. Ég óska þeim til hamingju með kosningaréttinn og hvet þau til að nýta sér hann og kjósa vel.

Ég hef ákveðið að gefa kost á mér í biskupskjöri til að beita mér fyrir að kirkjan sæki fram og endurskoði sífellt starf sitt í samræmi við þarfir samtímans. Mér er í mun að efla kirkjustarf í þágu barna og ungmenna. Tryggja þarf fjárhag sókna og hlúa að prestum og starfsfólki kirkjunnar. Glatt fólk þjónar vel.

Störf og verk
Ég hef þjónað sem prestur í sveit og borg og starfað við kirkjulega stjórnsýslu. Ég var rektor Skálholtsskóla og breytti starfi hans í menningarmiðstöð kirkjunnar. Eftir fræðslustarf á Þingvöllum stýrði ég landsátaki þjóðkirkjunnar í safnaðaruppbyggingu og var síðan verkefnisstjóri guðfræði og þjóðmála á Biskupsstofu. Ég sit á kirkjuþingi og er varafulltrúi í kirkjuráði. Síðustu átta ár hef ég verið prestur í stórum og líflegum Nessöfnuði í Reykjavík. Ég hef áhuga á nútímamiðlun og birti ræður mínar og greinar gjarnan á vefnum. Ég er hamingjumaður í einkalífi, á fimm börn á aldrinum 6 – 27 ára. Kona mín er Elín Sigrún Jónsdóttir, lögfræðingur. Ég er fjárhagslega, pólitískt og félagslega óháður. Vefurinn www.sigurdurarni.is er ítarleg upplýsingalind.

Biskup í tengslum
Ég virði en hræðist hvorki andóf gegn kirkju né trúargagnrýni. Áskoranir ögra og kalla á frjóa guðfræði. Kirkjan má ekki einangrast, heldur vera lífleg og tala frjáls á götum og torgum mannlífs, miðla gildum og beita sér til góðs í réttlætismálum samfélagsins.
Kirkjulífið á að vera til upplífgunar, til trúar á Guð og elskuríkrar þjónustu við menn. Möguleikar kirkjunnar eru miklir og heillandi. Ég býð mig fram til að þjóna, sætta og hvetja þjóðkirkjufólk til sóknar. Gleðilega kirkju.

Dr. Sigurður Árni Þórðarson

Fyrri greinAðgengi og aðstaða í skógum styrkt
Næsta greinFundu stolnar kerrur