Heimsfaraldurinn sem geisað hefur í rúmt ár hefur umbylt heimsmynd okkar og flýtt fyrir ýmiskonar þróun sem þegar var komin af stað að hluta. Fjarvinna, „störf án staðsetningar“ á fínu opinberu máli, hefur aukist mjög á síðasta rúma árinu, þökk sé Covid-19. Alls staðar að berast fréttir af breyttum veruleika á vinnumarkaði og áhrif þess á atvinnulífið hér á landi sem og erlendis. Almennt virðast fyrirtæki á markaði sjá tækifærin og unnið með þau en opinberir aðilar setið með hendur í skauti sér – ennþá.
Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar og núgildandi byggðaáætlun fyrir árin 2018-2024 er að finna málefni sem nefnist „störf án staðsetningar“. Í stjórnarsáttmálanum er ekki minnst á hve mikið af störfum eigi að auglýsa sem „störf án staðsetningar“ heldur verði ráðuneytum og stofnunum falið að skilgreina störfin sjálf og auglýsa þau án staðsetningar eins og kostur er. Markmið byggðaáætlunar er hinsvegar skýrara, en þar er markmiðið að „10% allra auglýstra starfa í ráðuneytum og stofnunum þeirra verði án staðsetningar árið 2024 þannig að búseta hafi ekki áhrif við val á starfsfólki og að slík störf verði unnin á starfsstöð þar sem fyrir er önnur starfsemi.“
Fjarvinna eykur lífsgæði
Það hefur komið fram í könnunum hér á landi að fólk vill nú í kjölfar Covid-19 áhrifanna fá að halda áfram með sveigjanlegan vinnutíma og þá vinna heima tvo til þrjá daga í viku. Með sveigjanlegum vinnutíma og vinnustöðvum eykst einnig val fólks um búsetu og gefur fólki sem dæmi, tækifæri á að velja hvort fjárfest sé í lítilli blokkaríbúð í vesturbæ Reykjavíkur eða einbýli á Selfossi.
Í könnun sem kostuð var af Vegagerðinni árið 2018 kom fram að um 20-30% háskólamenntaðra Selfyssinga starfi á höfuðborgarsvæðinu á degi hverjum. Fólk sem gæti sem best unnið hér heima að minnsta kosti tvo til þrjá daga í viku og sparað sér ferðirnar yfir Hellisheiðina. Með því að bjóða þessu fólki upp á starfstöðvar hér á Selfossi mun gæðastundum þeirra með fjölskyldum sínum fjölga og fólkið gæti tekið virkari þátt í samfélaginu okkar.
Tökum höndum saman
Nú eru að verða liðin fjögur ár síðan að stjórnarsáttmálinn var undirritaður og byggðaáætlun lögð fram og ennþá hefur lítið gerst í þessu brýna hagsmunamáli fyrir Suðurland.
Af þeim sökum, hvet ég nú til þess að ríkið og Svf. Árborg, bretti upp ermar og taki höndum saman við einkaaðila um að setja hér upp starfstöðvar fyrir þá starfsmenn fyrirtækja, stofnanna og ráðuneyta, sem hér búa og þá sem hingað vilja flytjast til að öðlast betri lífsgæði en því stendur til boða á höfuðborgarsvæðinu. Með því værum við í sameiningu að vinna að eflingu byggðar og atvinnulífs í héraði.
Tómas Ellert Tómasson,
bæjarfulltrúi Miðflokksins í Svf. Árborg