Síðastliðin ár hefur fólk í auknum mæli sótt austur fyrir fjall til búsetu. Íbúum hefur fjölgað í flestum nágranna sveitarfélögum. Gera má ráð fyrir að fjölgun verði einnig hér í Hrunamannahreppi. Sérstaklega með tilkomu nýju brúarinnar yfir Ölfusá en þá mun leiðin frá Reykjavík til Hrunamannahrepps styttast í tíma svo um munar.
Fólk mun sjá hag sinn í að flytja hingað, atvinnutækifæri, góð búsetuskilyrði og traustir innviðir, laða fólk að. Þetta þrennt þarf að vera til staðar. Samfélagið okkar verður miklu skemmtilegra með öflugu og fjölbreyttu mannlífi. Það sem fæst með auknum íbúafjölda og atvinnutækifærum er meiri þjónusta fyrir íbúa á öllum aldri. Sérstaklega ánægjulegt yrði ef stjórnendur lágvöruverzlunar sæju sér hag í að opna verzlun hér á svæðinu.
Mörkum stefnu að glæstri framtíðarsýn
Við viljum að það sé eftirsóknarvert að búa hér, að ungt fólk flytji hingað. Börnin okkar flytji aftur heim að námi loknu, stofni fjölskyldu og sjái atvinnutækifæri hér.
Markaðssetja þarf tækifærin í Hrunamannahreppi til næstu 50 ára og vinna þannig til framtíðar. Við þurfum miðbæ á ákveðnum stað, iðnaðarhverfi á öðrum stað og vel skipulögð íbúðahverfi.
Það þarf að skoða alla kosti sem blasa við á hverjum tíma og grípa tækifærin sem gefast. Það er nauðsynlegt að öll tannhjólin vinni saman ef vel á takast til í Hrunamannhreppi. Stefnumótun sveitarfélagsins þarf að vera til staðar.
Eignum Hrunamannahreppi hlutdeild í þroska Íslands
Það þarf að huga að stöðu eldri borgara, tryggja þeim aðgang að hjúkrunarheimilum og heimahjúkrun. Sem betur fer er félagsstarf þessa hóps með ágætum í sveitarfélaginu.
Sjálfstæðismenn og óháðir í Hrunamannahreppi bjóða nú fram til sveitarstjórnarkosninga undir bókstafnum D. Framboðið skartar öflugu fólki úr bændasamfélaginu, atvinnulífinu og sérfræðingum í skóla- og félagsmálum. Þetta er öflugur listi með reynslumiklu fólki á öllum aldri. Fólki með hugmyndir sem vill vinna fyrir samfélagið.
Frambjóðendur listans hafa skilning og þekkingu á málefnum sveitarfélagsins. Nú er tími til að horfa til framtíðar og skapa frjóan jarðveg fyrir unga sem aldna. Setjum X við D-lista sjálfstæðismanna og óháðra. Stígum þannig fyrsta skrefið í eflingu Hrunamannahrepps. Við byggjum saman bæ í sveit. Sem brosir á móti sól. Ljúfu lífi landið vítt. Mun ljá og veita skjól.
Herbert Hauksson
Frambjóðandi 2. sæti D-lista sjálfstæðismanna og óháðra í Hrunamannahreppi.