Ég hef þekkt Baldur allt mitt líf. Okkar á milli, líkt og feðra okkar sem voru bræður, hefur alla tíð ríkt mikil og góð vinátta og kærleikur. Þegar faðir minn lést stóð Baldur eins og klettur við hlið mér, ég þá aðeins 13 ára og hann 14 ára. Baldur hefur alla tíð verið ábyrgur, haft tíma fyrir aðra og tíma til að rækta vináttuna. Hann hefur sérstakt lag á að vera það sem á þarf að halda hverju sinni, mjúkur og umhyggjusamur en harður og sanngjarn þegar þess þarf. Ég hef því sérstaklega mikinn áhuga á forsetakosningunum í þetta sinn og valið fyrir mér er afar auðvelt og kristaltært.
Ég myndi treysta Baldri fyrir börnunum mínum því Baldur er mikill fyrirmynd þegar kemur að fjölskyldu og ég lít upp til hans þegar kemur að samskiptum við bæði börn og fullorðna. Fyrir Baldri eru allir jafnir og allir njóta sömu virðingar.
Baldur er hörkuduglegur og ég er nokkuð viss um að ef við værum að fara í berjamó myndi hann vera búinn að kynna sér staðinn vel, jafnvel kortleggja – hann er alltaf vel undirbúinn.
Baldur er málefnalegur og traustur, hann veit upp á hár fyrir hvað hann stendur en umfram allt er hann heiðarlegur og samkvæmur sjálfum sér. Hann veit hvaðan hann kemur og hvert hann er að fara. Baldur er vandaður mannvinur og er með öllu laus við hroka og tilgerð.
Baldur er einlægur í samskiptum, hann virkilega hlustar með áhuga þegar fólk talar við hann því Baldur er með eindæmum fróðleiksfús.
Ég get með sanni sagt að það er gott að leita til Baldurs, hann er lausnamiðaður og óeigingjarn í ráðum sínum. Hann er heiðarlegur og talar um hlutina eins og þeir eru, líka um skuggahliðar lífsins og hefur einstakt lag á að hvetja aðra til dáða.
Ég treysti Baldri fyrir þeim málaflokkum sem hann stendur fyrir, því hann er sannur í því sem hann tekur sér fyrir hendur – hann segir það sem hann meinar og meinar það sem hann segir.
Það er m.a vegna alls þessa sem ég ætla að kjósa Baldur á Bessastaði!
Hafdís Sigurðardóttir
Stolt frænka og stuðningskona Baldurs