Ég hef ákveðið að sækjast eftir því að leiða lista Framsóknarflokksins í Sveitarfélaginu Árborg, fyrir komandi sveitarstjórnarkosningar í vor.
En hvers vegna? Ég hef verið bæjarfulltrúi flokksins og óháðra síðastliðin fjögur ár og starfað sem forseti bæjarstjórnar. Á þessum tíma hefur átt sér stað mikil fólksfjölgun og uppbygging í sveitarfélaginu. Það hefur verið gaman, en krefjandi, að taka þátt í þessu ferli og móta framtíðina fyrir sveitarfélagið og íbúa þess, en um leið að bregðast við aðkallandi málum sem upp koma og krefjast skjótra úrlausna. Mikil fólksfjölgun, langt umfram landsmeðaltal, kallar á mikla og hraða uppbyggingu innviða s.s leikskóla, grunnskóla, gatna og ekki síður innviða s.s félagslega þjónustu, barnavernd, fræðslumál ofl. Ég tel mig hafa lagt mig allan fram í þessu verkefni og reynt að vinna þetta verkefni af heilum hug með framtíð og hag íbúanna að leiðarljósi.
Við svona hraða uppbyggingu þarf að kosta miklu til og þrátt fyrir aukningu á tekjum sveitarfélagsins við fjölgun íbúa er sú tekjuaukning langt frá því að duga fyrir allri þeirri hröðu uppbyggingu sem þarf að eiga sér stað. Þær tekjur duga skammt til byggingu leikskóla og grunnskóla sem byggðir eru til lengri framtíðar og aðkomu fleiri íbúa á komandi árum, með skatttekjum sínum. Vegna þess hefur þurft að ráðast í aukna skuldsetningu og meiri lántökur, til skemmri tíma, en allar áætlanir sína að það verður einungis til 2-3 ára og úr því fara auknar skatttekjur að gefa færi á jöfnuði í fjármálum og lægri álögum.
Prófkjör Framsóknarflokksins í Árborg fer fram 12. mars næstkomandi og verður eingöngu opið þeim sem eru flokksbundnir í Framsóknarflokknum. Frestur til að ganga í flokkinn, til að geta greitt atkvæði í prófkjörinu, er til miðnættis 9. febrúar næstkomandi. Einfalt er að ganga í flokkinn og hægt að gera það á heimasíðu flokksins.
Ég óska eftir stuðningi þínum við að leiða lista Framsóknarflokksins í Svf. Árborg, fyrir komandi kosningar 14. maí næstkomandi.
Helgi Sigurður Haraldsson,
forseti bæjarstjórnar Sveitarfélagsins Árborgar.