Ég þarf að gera grein fyrir atkvæði mínu

Á bæjarráðsfundi í gærmorgun var lögð fram beiðni um framkvæmdaleyfi í miðbæ Selfoss. Beiðnin var lögð fram af Sigtúni þróunarfélagi og óska forsvarsmenn eftir heimild til að reisa girðingu umhverfis athafnasvæði sitt og gengur tillaga mjög langt inná Sigtúnsgarð sem væri miður. Ef girðingin yrði reist myndi það hafa veruleg áhrif á viðburði þá sem halda á í sumar; 17. júní, Sumar á Selfossi og Kótelettuna. Svo ekki sé minnst á komandi ár því óvíst er hvort garðurinn verði nothæfur þegar fjölgar verulega á Selfossi.

Ljóst er að miklu landi hefur verið úthlutað til Sigtúns þróunarfélags og hafa forsvarsmenn í hyggju að girða það allt af ásamt framkvæmdasvæði sem er ekki eign Sigtúns Þróunarfélags heldur Sveitarfélagsins. Á þessari stundu liggja hönnunarteikningar ekki fyrir heldur hafa verið lögð fram áform sem vel geta tekið breytingum og hefur sá hátturinn verið á undanfarin ár. Heimildir hafa verið fengnar með vilyrði um að framþróunin verði unnin sem best með sveitarfélaginu. Það þýðir í raun að veittar eru heimildir til framkvæmda en þá er enn talsvert svigrúm til breytinga byggt á fyrra samþykki.

Með atkvæðinu og bókun sem fylgdi frestaði undirritaður ákvörðuninni til bæjarstjórnarfundar sem haldinn verður þann 26. júní. Á þeim fundi verður málið tekið fyrir að nýju og þá þarf að ákveða hvort og hvernig framkvæmdir halda áfram. Bæjarstjórnarfundir eru opnir og allir velkomnir. Vil ég því nota tækifærið og hvetja alla til að fylgjast með afgreiðslu málsins fyrir opnum tjöldum í stað lokuðu fundarherbergi ráðhússins þar sem bæjarráðsfundir fara fram. Með þessum hætti vill undirritaður stuðla að opinni ákvörðunartöku hvar bæjarfulltrúar þurfa að standa fyrir máli sínu fyrir framan íbúa sveitarfélagsins.

Til skemmri tíma eru áhrifin af atkvæðinu þau að hátíðarhöld í Sigtúnsgarði verða með hefðbundnu sniði þann 17. júní, án aðþrengingar girðingar sem reisa átti.

Ég læt bókun okkar fylgja með til upplýsingar:
Arnar Freyr Ólafsson, bæjarfulltrúi B-lista og Arna Ír Gunnarsdóttir, bæjarfulltrúi S-lista, leggja fram eftirfarandi bókun: „Í ljósi inngripa þeirra sem fyrirhugað er að ráðast í og takmarkaðra gagna sem lögð hafa verið fram þá erum við mótfallin afgreiðslu á svo viðamiklu máli í bæjarráði. Tillaga þessi er lögð fram með breyttum hætti frá umfjöllun og afgreiðslu í Skipulagsnefnd. Vegna breytinga á undirliggjandi gögnum teljum við að leggja þurfi málið fram á ný í Skipulagsnefnd til afgreiðslu. Að lokum teljum við að bæjarstjórn sé heppilegri vettvangur til að ræða opinskátt málið hvar íbúar geta fylgst með umræðum. Af þeim sökum erum við andvíg því að veita framkvæmdaleyfi í bæjarráði á girðingu umhverfis miðbæinn sem gengur mjög á viðburðasvæði Árborgar í Sigtúnsgarði.“

Arnar Freyr Ólafsson
Bæjarfulltrúi og oddviti Framsóknar í Árborg

Fyrri greinRagna ráðin aðstoðarskólastjóri
Næsta greinSölvi semur við Selfoss