Aukið framboð á leiguhúsnæði til langs tíma á viðráðanlegum kjörum er eitt brýnasta verkefni stjórnvalda í dag um land allt.
Þetta mál hefur brunnið heitt á okkur hér í Árborg að undanförnu, og brýnt að bregðast við, t.d. með öflugum leigufélögum sem gætu verið samstarfsverkefni ríkis, sveitarfélaga, lífeyrissjóða og einkaaðila. Til að slá á eftirspurnina er einnig mikilvægt að Íbúðalánasjóður, félagslegur húsnæðisbanki allra landsmanna, komi þorra sinna eigna, ekki síst í fjölbýli inn á leigumarkað tafarlaust.
Skorað á Íbúðalánasjóð
Að undanförnu hefur verið vaxandi umræða um stöðu leigumarkaðar og skort á leiguhúsnæði hér í Árborg. Gera má ráð fyrir að í sveitarfélaginu séu á annað hundrað fjölskyldur ýmist að bíða eftir leiguhúsnæði, í félagslega húsnæðiskerfinu eða á almenna markaðnum. Með nokkrum rökum mætti halda því fram, að vegna þessa ástands skrái færri fjölskyldur sig á biðlista þar sem skráning þjónar fyrirsjáanlega litlum eða engum tilgangi.
Ekki er óeðlilegt þegar slík staða kemur upp að líta til þeirra aðila sem eiga húsnæði í sveitarfélaginu sem stendur autt og ónotað. Íbúðarlánasjóður er þar í aðalhlutverki enda mjög stór aðili en samkvæmt upplýsingum frá þeim á sjóðurinn 78 eignir í sveitarfélaginu sem standa auðar og ónotaðar. Þetta er óásættanleg staða.
Bæjarráð hefur þegar ályktað með mjög ákveðnum hætti um málið. Þar er skorað á Íbúðalánasjóð að koma húsnæði í eigu sjóðsins án tafar í útleigu. Það ætti að vera markmið og stefna sjóðsins að vinna náið með bæjaryfirvöldum á hverjum stað fyrir sig þar sem eignasafn sjóðsins er mikið. Það hvarflar eitt augnablik að undirrituðum að bankar og lánastofnanir telji sig halda uppi markaðsverði á íbúðum með því að halda þeim útaf fyrir sig. Þessu ástandi geta forráðamenn sjóðsins ekki daufheyrst við og nú er boltinn hjá þeim.
Bráðaaðgerðir á leigumarkaði
Húsnæði á viðráðanlegu verði og kjörum, er afar stór þáttur í velferð hverrar fjölskyldu og einstaklings. Leiguverð hefur hækkað mikið á undanförnum árum, meira en húsnæðisverð og verðlag, og oft á tíðum er fólk krafið um háa tryggingu nokkra mánuði fyrirfram. Í sumum tilvikum hafa fjölskyldur misst hóflegar íbúðir, sem þær voru með á leigu vegna verðhækkana og líklega munu fleiri fara þessa sömu leið.
Það er ekki furða að fólk hugsi með sér hvað varð um allar íbúðirnar og húsin sem Íbúðarlánasjóður hefur umráð yfir? Þarna á Íbúðarlánasjóður að grípa inn í og bjóða húsnæði á hóflegum og viðráðanlegum kjörum og stöðva þessa óheillaþróun með félagsleg sjónarmið að leiðarljósi, sem er hluti af lögbundnu hlutverki hans. Sveitarfélögin bera lögum samkvæmt skyldur í húsnæðismálum, og ber að láta þetta stóra vandamál sig varða.
Til lengri tíma litið er nauðsynlegt að ríki og sveitarfélög tryggi öruggan og traustan leigumarkað, þar skipta öflug leigufélög miklu máli og eru að mínu mati lykill að framtíðarlausn á leigumarkaði, þar sem langtíma leiga er raunhæfur valkostur fyrir venjulegt fólk á Íslandi í stað þess ófremdarástands sem nú ríkir á húsnæðismarkaði í landinu.
Eggert Valur Guðmundsson, bæjarfulltrúi Samfylkingarinnar í Árborg.