Á fundi bæjarstjórnar í síðustu viku lögðu bæjarfulltrúar Samfylkingarinnar fram tillögu að ályktun um að skora á Alþingi að draga til baka tillögu utanríkisráðherra um slit á aðildarviðræðum við Evrópusambandið.
Afgreiðsla málsins var í stuttu máli sú að fulltrúar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks, greiddu atkvæði gegn tillögunni og sendu út í hafsauga án nokkurar málefnalegrar umræðu.
Það sem var einna athyglisverðast við þessa afstöðu meirihlutans og Framsóknar er að með því er verið að segja að bæjaryfirvöldum í Árborg komi hreint ekkert við hvort hugsanlega gæti verið ávinningur af því fyrir sveitarfélagið og þá í leiðinni íbúa þess að klára aðildarviðræður við Evrópusambandið. Það eru skilaboðin sem þessir bæjarfulltrúar senda til sinna kjósenda án frekari skýringa á afstöðu sinni.
Í greinargerð sem unnin var fyrir Samband íslenskra sveitarfélaga kemur m.a. fram að það sé ekki hægt að segja nákvæmlega til um heildarávinning sveitarfélaga fyrr en niðurstöður aðildarviðræðna liggja fyrir. Því er það mín skoðun að það sé ábyrgðarlaust af kjörnum fulltrúum að fella tillögu sem einungis felur í sér áskorun um aðkomu fólksins í landinu að einu stærsta máli samtímans, og það umræðulaust.
Nýtt fólk og öflug liðsheild
Í síðustu viku samþykkti aðalfundur Samfylkingarinnar í Árborg tillögu að framboðslista flokksins fyrir kosningarnar í vor. Samfylkingin í Árborg hefur fyrir sveitarstjórnarkosningarnar í vor verið svo lánsöm að fá til liðs við sig stóran hóp af frábæru fólki á öllum aldri sem tilbúið er að leggja á sig mikla vinnu, til þess að hugsjónir og markmið jafnaðarstefnunnar fái að njóta sín sem best við rekstur sveitarfélagsins.
Kraftmikil og öflug liðsheild mun sækja fram í kosningunum í vor undir merkjum frjálslyndrar jafnaðarstefnu. Eitt af stóru verkefnum nýrrar bæjarstjórnar verður m.a. að geta staðið undir auknum verkefnum sveitarfélaga í fjölbreytilegri nærþjónustu. Þá er mikilvægt að leggja aukna áherslu á aðkomu íbúanna að ákvörðunum og stefnumótun, ekki síst til að tryggja að vilji íbúana sé alltaf í fyrsta sæti.
Ein af þeim leiðum sem hægt er að fara er að bæjarstjórn leggist alvarlega í þá vinnu að leita leiða til þess opna fyrir atkvæðagreiðslur um einstök mál með rafrænu hætti. Gott dæmi um þetta er vefurinn „Betri Reykjavík“. Í sumum málum getur verið nauðsynlegt að fá fram raunverulegan vilja íbúana. Það er mín skoðun að þetta sé ein leið að auknu lýðræði í okkar ágæta sveitarfélagi, með þessari aðferð aukum við lýðræðisvitund íbúana og endanleg ákvarðanataka í yrði takt við ótvíræðan vilja þeirra er varða málin mest.
Markvisst samráð við fólkið í sveitarfélaginu stuðlar að betri ákvörðunum, og minnkar hættuna á því að það skapist vantraust á milli bæjaryfirvalda og íbúa, auk þess að með betra og öflugra samráði stuðlum við að enn betra orðspori sveitarfélagsins út á við. Raunverulegt íbúalýðræði er eitt af þeim málum sem Samfylkingin í Árborg mun leggja áherslu á í kosningunum í vor.
Eggert Valur Guðmundsson, bæjarfulltrúi Samfylkingarinnar í Árborg.