Eggert Valur: Framtíðin er í Árborg

Tíminn líður og ekki er langt þar til íbúar Árborgar ganga að kjörborðinu og velja sér nýja bæjarstjórn.

Sveitarstjórnarkosningarnar nú eru sérstakar að því leitinu til að þær fara fram í skugga einnar verstu efnahagskreppu sem riðið hefur yfir landið okkar. Fólk er orðið langþreytt á pólítísku karpi og áhugi almennings á kosningunum virðist vera lítill. Það er engu að síður mikilvægt að fólk taki þátt í að velja fólk til forystu næstu fjögurra ára því það skiptir máli hverjir fara með stjórnun sveitarfélagsins.

Atvinnumálin brenna á mörgum
Aðkoma sveitarfélagsins að atvinnumálum getur verið með ýmsu móti þó það komi ekki með beinum hætti að starfsemi og rekstri einkafyrirtækja. Samfylkingin leggur áherslu á öflugan stuðning við atvinnulífið með því að veita góða þjónustu og skapa eðlileg vaxtarskilyrði fyrir fyrirtæki sem hér eru og við fyrirtæki sem vilja flytja starfsemi sína hingað. Atvinnuleysi er vaxandi og við það ástand má aldrei una. Atvinna er forsenda velferðar fólks og þess vegna verðum við að leggja kraft í að halda í störf sem fyrir eru og skapa ný störf í stað þeirra sem lagst hafa af í kjölfar hrunsins.

Fuglaskoðun og ferðaþjónusta
Sóknarfærin í Árborg eru fjölmörg og má þar nefna Fuglafriðlandið í Flóa en um það bil þriðjungur erlendra ferðamanna sem koma til Íslands segjast skoða fugla á ferðum sínum um landið.

Á síðasta fundi umhverfis- og skipulagsnefndar Árborgar lagði fulltrúi Samfylkingarinnar í nefndinni fram tillögu þess efnis að gerð yrði könnun á kostnaði við bætt aðgengi og aðstöðusköpun í friðlandinu. Þessi tillaga er gott dæmi um hvernig hægt er að hafa frumkvæði að atvinnuuppbyggingu og nýta betur þá möguleika sem við okkur blasa.

Gott atvinnulíf byggir á á vinnusemi, dugnaði og áræði og af því höfum við mikið hér í Árborg. Við þurfum umhverfi þar sem sköpunarkraftur og framtakssemi einstaklinganna í samspili og samræmi við hagsmuni sveitarfélagssins skapa okkur tækifæri til framtíðar. Það er best gert með að nýta þá kosti og möguleika sem fyrir hendi eru og viðurkenna að góðar hugmyndir eru til gagns hvaðan sem þær koma.

Heiðarleiki áfram
Það er mjög mikilvægt að heiðarleiki og styrkur ríki áfram við stjórn sveitarfélagssins. Ég tel að hugmyndafræði og aðferðir sjálfstæðismanna séu ekki það sem Sveitarfélagið Árborg þarf núna.

Á næstu dögum verður dreift í öll hús í Árborg stefnumálum Samfylkingarinnar fyrir næsta kjörtímabil ég skora á alla að kynna sér málin vel og líta við á kosningaskrifstofunni í Tryggvaskála og ræða málin.

Eggert Valur Guðmundsson skipar annað sætið á lista Samfylkingarinnar í Árborg

Fyrri grein„Þokkalega stödd til að takast á við afleiðingar gossins“
Næsta greinLöggur leiða báða lista í Skaftárhreppi