Sorpstöð Suðurlands (SOS) er samstarfsvettvangur ellefu sveitarfélaga á Suðurlandi um sorphirðu og úrgangsmál.
Á allra síðustu misserum hafa verið nokkrar sviptingar í þessum málum og eigendur SOS átt erfitt með að koma sér saman um leiðir og lausnir í mikilvægum verkefnum. Lokun urðunarstaðarins í Kirkjuferjuhjáleigu þann 1. desember sl. meðal annars vegna ítrekaðrar andstöðu sveitarstjórnar Ölfuss við áframhaldandi urðun þar setti sorphirðumál á svæðinu í uppnám.
Umhleðslustöð sparar íbúum peninga
Þegar fullreynt var sl. vetur með að ekki yrði framlengt leyfi til urðunar í Kirkjuferjuhjáleigu var tekin ákvörðun um að leita eftir samningi við Sorpu um að þar yrði tekið tímabundið við sorpi frá Sunnlendingum, eða þar til hér hefði verið tekinn í notkun nýr urðunarstaður. Til þess að flutningur á sorpi á Reykjarvíkursvæðið yrði sem hagkvæmastur var ákveðið að SOS kæmi upp umhleðslustöð fyrir sorp á Selfossi. Unnið var út frá því að kostnaður við framkvæmdina yrði sem allra minnstur og framkvæmdir að stærstum hluta afturkræfar. Helstu kostir við framkvæmdina eru að ferðum með sorp og endurvinnanleg efni fækkar um allt að 80 %. Flutningskostnaði sveitarfélaga og fyrirtækja er þar með haldið niðri. Ekki verður þó komist hjá því að kostnaður vegna sorpmeðhöndlunar aukist við þessa breytingu, enda var kostnaður vegna Kirkjuferjuhjáleigu með því sem lægst gerist á landinu.
Starfsemi umhleðslustöðvarinnar hófst um miðjan júní sl. Í upphafi gekk starfsemin vel en ákveðnir byrjunarörðuleikar urðu til þess að kvartanir bárust frá íbúum vegna foks á rusli og vargfugls sem sótti í auknum mæli á svæðið. Í framhaldinu óskuðu flugmálayfirvöld eftir að annarri af flugbraut Flugklúbbs Selfoss yrði lokað vegna ásóknar vargfugls á svæðið.
Brugðist var við vandanum
Í kjölfar kvartana fór SOS í markvissar aðgerðir til að bæta úr því sem miður hafði farið í starfsemi umhleðslustöðvarinnar. Verklag var yfirfarið og gerðar úrbætur á þeim þáttum sem kvartanir höfðu borist um. Þá brá svo við að meirihluti Sjálfstæðismanna í Árborg ákvað að standa við eitt af kosningaloforðunum frá því síðastliðið vor og sagði einhliða upp samningi við SOS. Þetta var algjörlega án samráðs við önnur aðildarsveitarfélög SOS. Ekki er vitað til þess að fyrir liggi áætlanir hjá meirihlutanum í Árborg um hvernig eigi að leysa sorpmálin fyrir íbúa og fyrirtæki þegar umhleðslustöðinni verður lokað eftir tæpt ár. Stjórnendur sveitarfélaga verða að gefa þessum málaflokki tíma og vandaða málsmeðferð því meðhöndlun úrgangs er ábyrgðarhluti og þar bera öll sveitarfélög ábyrgð.
Nýr urðunarstaður
Mikil leit hefur staðið yfir að landi undir nýjan urðunarstað. Það land virðist ekki liggja á lausu hér frekar en annarsstaðar á landinu. Enn hefur enginn boðið fram land sem uppfyllir skilyrði sem gerð eru til slíkra nota eða sem nýtur samþykkis viðkomandi skipulagsyfirvalda.
Gera þarf ráð fyrir að breyta þurfi aðalskipulagi og samræma deiliskipulag að nýju svæði. Sækja þarf leyfi hjá þar til bærum yfirvöldum, framkvæma umhverfismat, gera hagkvæmiútreikninga, útvega starfsleyfi og annað sem þarf til starfseminnar. Gera má ráð fyrir því að þetta vinnuferli taki í það minnsta tvö til þrjú ár. Það er stærsta verkefni nýrrar stjórnar SOS að kanna vilja og viðhorf sveitarfélaganna til þess að hýsa þessa starfsemi til framtíðar. Það þarf að vinna hratt og markvisst og nauðsynlegt að fá fram álit og viðhorf sveitarfélaganna á þeim stöðum sem helst þykja álitlegir fyrir framtíðarurðunarstað Sunnlendinga. En eftir stendur spurningin um hvernig leysa eigi málin með umhleðslustöðina nú þegar meirihlutinn í Árborg hefur sett málið í uppnám.
Öll dýrin í skóginum vinir?
Það er athyglisvert í umræðunni um sorphirðumálin að bæjarstjórinn í Hveragerði lætur hafa eftir sér í fjölmiðlum að staða sorphirðumála séu okkur Sunnlendingum til háborinnar skammar. Það er mjög sérstakt að bæjarstjórinn skuli láta hafa þetta eftir sér í ljósi þess að hún hefur verið starfandi varamaður í stjórn SOS síðastliðin fjögur ár og setið fjölmarga stjórnarfundi og virðist ekki hafa haft aðrar lausnir á þeim vandamálum sem stjórn SOS hefur staðið frammi fyrir.
Á nýafstöðnu Ársþingi SASS þar sem aðalfundur SOS var haldinn lá fyrir tillaga um að fjölga í stjórn SOS úr 3 fulltrúum í 5 fulltrúa. Þegar skipað var stjórnina kom í ljós að Sjálfstæðismenn í Árborg ætluðu sér að eiga báða fulltrúa Árborgar og báru fyrir sig lögformlegu álit frá ráðuneyti sveitarstjórnarmála um atkvæðavægi kosninga!
Niðurstaðan var sú að allir stjórnarmenn eru sjálfstæðismenn, hvaðan sem þeir koma úr héraðinu svo væntanlega verður heilagur friður um ákvarðanir stjórnar SOS eða í það minnsta ekki ágreiningur um hugmyndafræði um afgreiðslu mála.
Eggert Valur Guðmundsson, bæjarfulltrúi Samfylkingar í Árborg.