Beint lýðræði er oft besta leiðin til að leiða stór mál til lykta. Gefa fólki færi á að taka ákvörðun milliliðalaust um mikilvæg mál á borð við skipulagsmál.
Nú er rökrætt um uppbyggingu miðbæjarins á Selfossi, en uppbygging hans skiptir okkur öll miklu máli. Það er því áleitin spurning hvort ekki sé eðlilegt þegar hugmyndirnar um skipulag hans liggja fyrir að kjósendum í Árborg sé gefið færi á að segja álit sitt á þeim með beinum hætti.
Virkt íbúalýðræði er að mínu mati annað og meira en að fólki sé gefinn kostur á að kjósa sér nýja sveitarstjórn á fjögurra ára fresti. Íbúar sveitarfélaga eiga að mínu mati í auknum mæli að fá að segja sína skoðun í almennum kosningum um stór og umdeild mál er varða daglegt líf fólks til langrar framtíðar.
Í Svf. Árborg hefur sem betur fer margt áunnist á undanförnum árum varðandi aukna lýðræðisvitund. Ungmennaráð hefur verið starfandi auk hverfisráða, og fyrir stuttu var samþykkt tillaga frá bæjarfulltrúum Samfylkingarinnar um að koma á fót öldungaráði sem ætlað er að fara með hagsmuni og málefni eldri borgara í sveitarfélaginu. Það er mín skoðun eftir að hafa starfað lengi að sveitarstjórnarmálum að aukin þátttaka og bein aðkoma íbúa við mótun tillagna og við ákvarðanatökur sé eingöngu til góðs.
Óskum eftir auknu samráði
Það finna sig ekki allir í því að taka þátt í pólítísku starfi, en vilja eftir sem áður hafa áhrif á umhverfi sitt og koma sínum skoðunum á framfæri. Okkur ber að leita nýrra leiða til þess að opna fólki fleiri möguleika þannig að það geti haft meiri áhrif á stjórnmálin. Beint lýðræði ber að nota í vaxandi mæli í nærsamfélaginu. Ekki síst þegar um jafn mikilvæg málefni og skipulagsmál er að ræða.
Sú staða getur komið upp að það þurfi að setja kjörnum fulltrúum stólinn fyrir dyrnar, ekki síst þegar þeir virðast ætla taka ákvarðanir þvert gegn vilja íbúana. Aukin þátttaka almennings í ákvarðanatökum í stórum málum og þá ekki síst í skipulagsmálum, getur stuðlað að betra samræmi milli þarfa samfélagsins og þeirra lausna sem valdar eru að lokum. Það hlýtur að vera jákvætt fyrir athafnamenn og fyrirtæki sem stefna á stórar og viðamiklar framkvæmdir, að vilji íbúanna sé óumdeildur. Aukin þátttaka fólks í stefnumótun og ákvarðanatöku í stórum og umdeildum málum hlýtur að vera styrkur fyrir sveitarfélagið til lengri tíma litið og mun skila sér margfalt til baka.
Eggert Valur Guðmundsson, bæjarfulltrúi Samfylkingarinnar í Árborg.