Einhver sú besta forvörn sem við eigum

Öflugt og fjölbreytt félagsstarf í heimabyggð skapar grunn fyrir einstaklinga til að blómstra og gefa af sér til samfélagsins. Ein af stóru spurningunum sem við skulum ávallt hafa í huga er „Hvernig get ég gefið af mér til samfélagsins?“ Mér þykir ekkert sjálfsagðara en að gefa af mér til samfélagsins sem ól mig upp og mótaði mig. Mín leið til að gefa af mér til samfélagsins hefur fram að þessu fyrst og fremst verið í gegnum ungmennafélagshreyfinguna.

Að mínu mati er ungmennafélagshreyfingin eitthvað það besta sem við eigum í íslensku samfélagi. Út um land allt vinnur hreyfingin ómetanlegt starf sem styrkir og eflir samfélögin með frábæru og fjölbreyttu félags- og íþróttastarfi. Störf sem oft á tíðum eru unnin í sjálfboðavinnu. Enda sjálfboðaliðinn eitthvað það mikilvægasta sem til er í hverju samfélagi.

Skipulagt íþrótta- og æskulýðsstarf er svo frábært á margan hátt en þar eru veigamestu þættirnir efling félagslegrar, andlegrar og líkamlegrar heilsu. Það er því afar mikilvægt að auka þátttöku barna og ungmenna í íþrótta- og æskulýðsstarfi. Samhliða því þarf að tryggja að öll börn geti stundað félags- og íþróttastarf. Í þessu samhengi munu ný stofnaðar svæðisstöðvar Íþróttasambands Íslands (ÍSÍ) og Ungmennafélags Íslands (UMFÍ) um land allt gegna lykilhlutverki. Verkefni sem Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, leiddi af mikilli snilld.

Eitt af megin verkefnum svæðisstöðvanna er að auka þátttöku barna og ungmenna í íþróttastarfi. Þar er sérstaklega horft til fatlaðra barna, barna af tekjulægri heimilum og barna af erlendum uppruna. Stofnun svæðisstöðva er samstarfsverkefni ÍSÍ, UMFÍ og stjórnvalda og er jafnframt einn liður í því stóra verkefni sem stjórnvöld vinna að í lögum um farsæld barna.

Einnig má líta á stofnun svæðisstöðvanna sem mikilvægt byggðaþróunarmál, þá sérstaklega fyrir minni byggðarlög sem reiða sig á fáar hendur í skipulögðu íþrótta- og æskulýðsstarfi. Svæðisstöðvarnar munu styðja við og þar af leiðandi efla félög á hverjum stað. Ef samfélag ætlar að vaxa þarf ákveðin þjónusta að vera til staðar. Eitt af því fyrsta sem fjölskyldufólk horfir til er hvaða tómstundir eru í boði fyrir börnin. Þess vegna skiptir miklu máli að styðja við íþrótta- og æskulýðsstarf um land allt.

Stuðningur við ungmennafélagshreyfinguna má ekki vera vanmetin, hann skilar sér margfalt til baka í blómlegra og heilbrigðara samfélagi. Þessi stuðningur hefur kannski aldrei verið mikilvægari en núna enda skipulagt íþrótta- og æskulýðsstarf einhver sú besta forvörn sem við eigum í íslensku samfélagi.

Sigurður Eyjólfur Sigurjónsson
Íþrótta- og æskulýðsfulltrúi
Skipar 5. sæti á lista Framsóknar í Suðurkjördæmi

Fyrri greinHeiðrún Fjóla tvöfaldur Íslandsmeistari
Næsta greinKjördæmafundur í beinu streymi