Ekki fara í hjartastopp á Suðurlandi

Það var sláandi að heyra þá tölfræði sem var lögð fram í tengslum við sjúkraflutninga á Suðurlandi við heimsókn frambjóðenda Framsóknarflokksins í Suðurkjördæmi. Við höfum öll séð í fjölmiðlum fréttir af slysum þar sem þrír eða fjórir sjúkrabílar ásamt slökkvibíl eru sendir á vettvang, sem gefur fólki mikilvæga öryggistilfinningu. En hvað ef alvarlegt slys eða árekstur á sér stað á Suðurlandi? Á þessu víðfeðma svæði, sem spannar um 30.966 km², eru aðeins þrettán sjúkrabílar tiltækir til að þjóna öllu svæðinu.

Langar vegalengdir setja öryggi í hættu
Þetta landsvæði er gríðarlega stórt, og vegalengdin frá Höfn í Hornafirði að sjúkrahúsinu á Selfossi er 401 km – keyrsluleið sem tekur um 4 klukkustundir og 46 mínútur. Slík vegalengd veldur því að öryggi íbúa og ferðamanna á svæðinu getur verið í húfi, sérstaklega þar sem Suðurland er ekki aðeins stórt heldur einnig fjölsótt af ferðamönnum allt árið og inniheldur yfir 7.036 sumarhús, sem er um 56% af öllum sumarhúsum á landinu. Þar að auki er íbúafjöldinn á svæðinu um 32.437 manns, dreifður um 15 sveitarfélög. Það er ljóst að þrír sjúkrabílar á svo víðfeðmu svæði eru langt frá því að uppfylla þarfir íbúanna.

Lífslíkur minnka með hverri mínútu
Í neyðartilvikum eins og hjartastoppi minnka lífslíkur um 7-10% fyrir hverja mínútu sem líður án meðferðar. Eins er gullna stundin (e. Golden hour), eða fyrstu 60 mínúturnar eftir alvarlegt slys, talin afgerandi með tilliti til lifunar og lífsgæða. Í ljósi þessa er óraunhæft að sjúkraflutningur frá Höfn til Selfoss taki fjórar klukkustundir og því er brýnt að leita annarra lausna til að tryggja heilbrigðisöryggi íbúa og ferðamanna á Suðurlandi.

Í 1. grein heilbrigðislaga nr. 40/2007 segir að „allir landsmenn eigi kost á fullkomnustu heilbrigðisþjónustu“ en ljóst er að á Suðurlandi er þetta erfitt að uppfylla með einungis þrettán sjúkrabíla á svæðinu.

Nauðsynlegar aðgerðir til úrbóta
Við teljum mikilvægt að auka fjármagn til að bæta aðstöðu sjúkraflutninga um allt kjördæmið. Við þurfum að hafa viðbragðsaðila betur búna á Höfn. Það er nauðsynlegt að geta verið vel undirbúin til að taka á móti þyrlu þegar hún kemur. Að sama skapi er nauðsynlegt að bæta aðstöðu sjúkraflutninga víðs vegar um svæðið til að styðja betur við þá öryggisþjónustu sem íbúar eiga rétt á samkvæmt lögum.

Öruggt og réttlátt heilbrigðiskerfi fyrir alla
Með þessum aðgerðum væri hægt að mæta þeirri miklu þörf sem er fyrir hraða og örugga sjúkraflutninga á Suðurlandi. Þetta væri mikilvægt skref í átt að öruggara og réttlátara heilbrigðiskerfi fyrir alla landsmenn og stuðlað að betri heilbrigðisþjónustu á þessu mikilvæga svæði.

Fida Abu Libdeh
Höfundur er orku- og umhverfistæknifræðingur og skipar 4. sæti lista Framsóknar í Suðurkjördæmi

 

Fyrri greinEr rökvilla að ganga?
Næsta greinMeðferðarheimilið Lækjarbakki fær nýtt húsnæði