Svar við grein oddvita Á-lista í Rangárþingi ytra.
Þann 7. september skrifaði Eggert Valur Guðmundsson oddviti Á-lista Rangárþings ytra (Ry) grein með yfirskriftinni „Sáttmáli um vindorkuver“. Ég geri ráð fyrir að Eggert hafi viljað að Sunnlendingar hefðu þá sýn að það væri góð almenn sátt um að byggja fyrsta vindorkuver landsins í Rangárþingi. Með þessum skrifum er ætlunin að rýna aðeins í þá grein og spyrja þeirrar einföldu spurningar Er „sátt um vindorkuver“?
Ástæðan er einfaldlega sú að almenningur er ekki vel upplýstur um hvað situr eftir í sveitarfélaginu eða hvaða áhrif þessi framkvæmd getur haft. Í grein oddvitans eru nánast bara „ef“, “kannski og “mögulega” þetta og hitt en engar haldbærar skýringar eða staðreyndir lagðar fram.
Við skulum reyna að greina orð oddvitans til að finna svörin. Svo treystum við því að hann fylli í eyðurnar með það sem uppá vantar. Ef ríkja á sátt um vindorkuver þá þurfa staðreyndirnar að liggja fyrir en ekki bara einhver von, ef og kannski.
Vindmyllur (120 MW)
Verkefnið felur í sér uppbyggingu á vindmyllugarði með allt að 30 vindmyllum, uppsett afl væri allt að 120 MW og hámarkshæð á hverri myllu 150 metrar. Eins og oddvitinn segir, þá kemur fram í aðalskipulagi Rangárþings ytra 2016-2028 að sveitarfélagið hafi markað sér skýra stefnu í vindorkumálum. Oddvitinn nefnir hins vegar ekki að það sé líka skýr stefna í aðalskipulaginu að „…viðhalda lítt snortnu yfirbragði hálendisins…“ og það skuli gera m.a. með því að „byggingar skuli vera lágreistar, falla vel að landi og…“. Varla er hægt að segja að 30 stykki, 150 metra háar vindmyllur falli alveg að þessum „skýru markmiðum“! Spurning er alltaf hvaða „skýru“ markmiðum er haldið á lofti hverju sinni? Hafa verður í huga að vinna við aðalskipulagið fór fram á árunum fyrir 2016, en á átta árum gerist margt í heiminum.
Einnig kemur fram í aðalskipulaginu að sveitarfélagið leggi áherslu á að virkjun vindorku sé mikilvægur þáttur í framtíðaruppbyggingu orkumála á Íslandi og að sveitarfélagið sé tilbúið að taka þátt í þeirri þróun.
Þarna skulum við staldra aðeins við. Það eru einungis virkjanasinnar sem staðhæfa að „vindorka sé mikilvægur þáttur í framtíðaruppbyggingu orkumála á Íslandi“. Almenningur hefur aldrei verið spurður um það hvort hann telji að þetta sé ákjósanlegur kostur.
Færeyjar (120 MW)
Það eru svakalegar framfarir í þróun á allskonar tækni og ég vil nefna sem dæmi að Færeyingar eru nú um stundir að taka í notkun sjávarfallavirkjanir. Í heildina munu þeir setja upp fyrir árið 2030, 120 MW virkjun sem engin mun sjá! Sú virkjun er jafn stór og fyrirhugaður vindorkugarður við Vaðöldu. Þegar í maí 2022 var fyrsti “drekinn” tekinn í notkun og hefur gengið ágætlega. Þessar sjávarfallavirkjanir munu dekka 40% af allri orkuþörf Færeyja! Færeyingar þekkja vindmyllur mjög vel og hafa verið með lengi en eru sem sagt að hverfa frá þeim og yfir í sjávarfallavirkjanir.
Kannski eru ályktanir sem Ry gerði fyrir árið 2016 ekki þær réttu fyrir daginn í dag! Leiða má líkum að því að vindmyllugarðar ættu alls ekki að vera settir upp á landi á Íslandi í dag. Bæði vegna þess að það er óþarfi og það eyðileggur ásýnd Íslands sem náttúruperlu! Það skiptir ekki máli þó Landsvirkjun sé búin að eyða tíma í rannsóknir í 20 ár!
Reynsla Norðmanna er slæm
Þann 10. desember 2023 skrifaði norski orkuráðgjafinn Sveinulf Vågene grein í Heimildina um reynslu Norðmanna af byggingu vindorkuvera. Hvet ég alla til að lesa þá grein. Þar í landi hafa svæði sem jafnast á við 84 þúsund fótboltavelli verið lögð undir slíka starfsemi.
Orkuráðgjafinn segir í greininni m.a. þetta:
„Ég hef frétt að á Íslandi séu áform um að reisa vindorkuver á ósnortnum svæðum. Það vekur furðu, sérstaklega með tilliti til reynslu Norðmanna af slíkri uppbyggingu. Ég vil gjarnan deila með ykkur upplýsingum um hvernig staðið var að málum hér í Noregi. Þið mynduð kannski vilja forðast mistökin sem við gerðum? Við leyfðum vindorku fyrirtækjum að skaða náttúruna, umhverfið og orkukerfin okkar og þeir einu sem högnuðust á því voru örfáir einstaklingar sem voru drifnir áfram af gróðavon.“
Og áfram vitna ég í Norðmanninn: „Það tók norskan almenning ekki nema tvö ár að skipta um skoðun á vindorkuverum. Árið 2018 voru aðeins 10% Norðmanna á móti þeim, tveimur árum síðar voru 42% andsnúin en aðeins 32% hlynnt vindorkuverum. Svo hraðar breytingar á almenningsáliti eru nær óþekktar í sögu umhverfismála í Noregi.“
Ástæðan fyrir þessum viðsnúningi almennings í Noregi er að fólkið var loksins upplýst um staðreyndir í stað þess að hafa bara einhliða áróður virkjanasinna. Nú velti ég því fyrir mér hvort starfandi sveitarstjórnarfólk í Ry hafi aldrei lesið þessa grein eða aðrar sem vara við vindmyllugörðum líkum þeim sem Landsvirkjun hyggst reisa við Vaðöldu? Maður spyr sig hvort fólk sem valið er til forystu í sveitarfélögum vilji ekki læra af mistökum sem sveitarstjórnarfólk í nágrannalöndum okkar hefur gert, eða er það bara svona illa upplýst? Sveitarstjórnarfólk í Noregi sem er með uppbyggingu á vindmyllugörðum í dag er ekki mjög vinsælt af almenningi!
Grein oddvitans
Þar kemur fram að það séu jákvæðir þættir í svona verkefni en að það sé líka réttilega neikvæðir þættir. Við svo mikilvæga ákvarðanatöku ætti almenningi að vera algerlega ljóst hvaða þættir þetta eru, bæði þeir jákvæðu og neikvæðu. Ég sakna þess að oddvitinn listi einfaldlega upp alla þætti sem skipta máli með rauntölum og staðreyndum svo almenningur geti myndað sér upplýsta skoðun í stað þess að bjóða því súpu af orðum sem hafa enga meiningu og ekkert innihald. Er þetta skynsamlegt eða ekki spyr fólk!
Fyrsta vonin
Oddvitinn segir „þetta getur dregið úr aðdráttarafli svæðisins fyrir ferðamenn en við vonumst til þess að að geta lagt enn meiri kraft í samvinnu við Landsvirkjun í virkjanatengda ferðamennsku.“
Spurt er: Er réttlætanlegt að fórna stóru svæði undir vindmyllur í þeirri „VON“ að mögulega verði einhver „virkjanatengd ferðamennska“? Það liggur fyrir hvaða tekjur er hægt að hafa af ferðafólki í dag en liggur fyrir hvaða tekjur hafa orðið eftir í Ry af „virkjanatengdri ferðamennsku“? Ég persónulega hef aldrei heyrt af þeim tekjum hjá Ry, en oddvitinn getur upplýst okkur um þær tölur úr bókhaldi sveitarfélagsins – væntanlega?
Svo mætti líka spyrja: hvað viljum við fórna miklum tekjum frá núverandi ferðaþjónustu til að fá hugsanlegar tekjur frá „virkjanatengdri ferðamennsku“ sem er gjörsamlega óskilgreind breyta?
Vinsamlega svaraðu því Eggert hvaða tekjur það eru, svo fólkið í Ry geti metið „vonina“ um slíka tekjulind!
Vaðölduvirkjun áhrif og tækifæri
Oddvitinn staðhæfir “að framkvæmdin muni hafa jákvæð hagræn áhrif á sveitarfélagið” en rökstyður það ekki á neinn hátt og leggur ekki fram neinar tölur þar um. Hann nefnir að Ry vilji styðja við öll fyrirtæki sem vilja byggja upp atvinnulíf í sveitarfélaginu – það er auðvitað jákvætt. Landsvirkjun hefur síðan á sjötta áratugnum verið með virkjanir á þjórsársvæðinu en hvað starfa margir úr Ry hjá fyrirtækinu?
Uppbygging vindorkuvers fer þannig fram að Landsvirkjun er skylt að setja allar framkvæmdir í útboð á ESB svæðinu svo það gætu verið norsk félög eða ítölsk sem sjá munu um allar framkvæmdir! Reksturinn getur líka verið boðin út, það er ekkert í hendi þrátt fyrir að Landsvirkjun hyggist setja upp rekstrardeild sem skapa muni mögulega 6-7 störf ef ég man rétt.
Spurt er: Er réttlætanlegt að fórna stóru svæði undir vindmyllur í þeirri „VON“ að mögulega verði til 6-7 störf sem þess vegna gætu gufað upp með nýrri tækni á morgun sem gerir það auðveldara og ódýrara að reka rekstrardeild á annan máta! Svo er stöðug krafa á ríkisstofnanir að þær hagræði og störf eru aldrei í hendi hjá neinni slíkri stofnun þó loforð fylgi í byrjun – þetta vita allir!
Vinsamlega svaraðu því Eggert hvað Ry er tilbúið að fórna miklum verðmætum fyrir 6-7 störf? Það getur verið gott fyrir aðra aðila sem vilja mögulega byggja upp atvinnustarfsemi í Ry að vita það!
Tekjur 0 eða mínus?
Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps (SG hrepps) samþykkti þann 4 september síðastliðin að kæra virkjunarleyfið sem Orkustofnun hefur gefið út fyrir Búrfellslund til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála. Við þekkjum öll ástæðuna.
Oddvitinn segir: „Það er ekki rétt sem fullyrt hefur verið að Rangárþing ytra komi út í mínus er varðar fasteignagjaldatekjur þó að eins og lagaumgjörðin er í dag þýði ekki verulegar slíkar tekjur.“
Það liggur 100% fyrir í útreikningum Landsvirkjunar hvað fyrirtækið þurfi að greiða í gjöld til Ry vegna þessara framkvæmda. En oddvitinn er ekki að leggja fram neinar upplýsingar hverjar þær eru?! Sveitarstjóri SG hrepps staðhæfir að engar rauntekjur muni koma af þessari framkvæmd þar sem þá tapist greiðslur úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga á móti!
Spurt er: Er réttlætanlegt að fórna stóru svæði undir vindmyllur í þeirri „VON“ að mögulega verði einhverjar tekjur? Einhvern tímann? Samkvæmt orðum oddvitans er lagaumgjörðin þannig að Ry vænti þess að um litlar tekjur sé að ræða – en hverjar?
Á Hellu eru í boði iðnaðarlóðir sem greiða þarf fyrir eins og eðlilegt er, þær eru meira að segja ódýrar miðað við höfuðborgarsvæðið. En svo erum við að tala um landsvæði fyrir vindmyllugarð sem er 17 ferkílómetrar með áhrifasvæði sem er mörgum sinnum það! Hvað þarf Landsvirkjun að greiða fyrir allt þetta land? Á það bara að vera frítt á meðan önnur fyrirtæki þurfa að greiða fyrir að fá lóðir í eigu sveitarfélagsins? Hver er verðmiðinn á 17 ferkílómetrum?
Svo segir oddvitinn: „Hins vegar horfum við til annarra þátta er koma að hagrænum áhrifum.“
Hverjir eru þessir hagrænu þættir? Skýr svör óskast!
Úthlutun náttúrugæða
Svo segir oddvitinn: „Staðreyndin er sú að það er verið að úthluta náttúrugæðum og ekkert nema sjálfsagt að nærsamfélagið fái jákvæða hluti í staðinn.“
Þá fer hann að tala um bætt samgöngukerfi? Það liggur malbikaður vegur upp í Hrauneyjar, það er beygt út af honum til að fara inn á þetta svæði. Í kynningarmyndbandi Landsvirkjunar er einmitt talað um að nýttir verði vegir sem þegar eru til staðar til að minnka umfang framkvæmda! Svo hvaða bætur í samgöngukerfi erum við að tala um? Og þeir vegir eiga kannski mögulega að geta hugsanlega skapað einhver tækifæri einhvern tímann fyrir einhverja?!
Snuðin
Svo talar oddvitinn um „snuðið“ sem Landsvirkjun er að stinga upp í sveitarstjórn Ry með því að koma að styrkingu Brunavarna Rangárþings – þetta er taktík sem stórfyrirtæki um allan heim nota til að fá sveitarstjórnarfólk með sér í lið. Heimilisfólkið á dvalarheimilinu á Reyðarfirði fékk sendan fána Alcoa frá Ástralíu til að kaupa sér velvild – Landsvirkjun er að gera það sama með styrkingu Brunavarna Rangárþings.
Starfsstöð verður á Hellu
Ry hefði ásamt öðrum sveitarfélögum á svæðinu báðum megin Þjórsár átt að standa í lappirnar fyrir áratugum síðan og krefjast þess að stærsti hluti í starfsemi Landsvirkjunar færi fram á Suðurlandi. Að höfuðstöðvarnar ættu að vera á svæðinu og ekkert minna. Þar sem fólk er orðið langþreytt á því að engin starfsemi sé hjá Landsvirkjun á svæðinu þá er þetta annað „snuð“ sem stinga á upp í sveitarstjórnina. Setjum upp starfsstöð á Hellu með 6-7 störfum – bingó!
Óformlegt hjal
Að sögn oddvitans „…hefur komið fram óformlega að Landsvirkjun muni leita til verktaka í heimabyggð til þess að koma að verkefnum sem ekki eru útboðsskyld“. Einmitt, óformlegt hjal um að kannski verði eitthvað einhvern tímann og þá eiga heimamenn að hoppa af kæti og mæna vonaraugum yfir Hellisheiðina í þeirri von að kannski komi eitthvað – einhvern tímann! Og enn ein „kannski ef“ er mögulegur samningur um einhverja sölu á orku á Strönd austan við Hellu, ef mögulega einhver vill koma og kaupa rafmagnið sem kannski, mögulega kemur, ef…?
Svo klikkir oddvitinn út með því að það sé skoðun hans að „bygging þessa vindorkuvers þýði margvíslegan ávinning fyrir Rangárþing ytra“ með þremur tilvísunum:
A – auknum skatttekjum – sem sveitarstjóri SG hrepps hefur sagt að sé tálsýn!
B – atvinnusköpun – hugsanlega mögulega verða 6 – 7 störf í boði?
C – innviðauppbyggingu – sem er engin fyrir almenning enda gumar Landsvirkjun af því að þeir ætli einmitt að nota þá innviði sem fyrir eru til að raska sem minnst!
Þó að oddvitinn þekki svæðið vel eftir áratuga vinnu hjá Landsvirkjun við vörslu uppi í virkjunum þá eru það ekki rök fyrir óskynsamlegum ákvörðunum! Sumir setja meira að segja spurningamerki við að fyrrverandi starfsmaður Landsvirkjunar til áratuga sé að leiða svona verkefni fyrir sveitarfélagið. Enginn er í efa um að svæðið allt fyrir ofan Búrfell er eitt það besta sem til er á Íslandi undir vindmyllugarða, alveg óháð veru oddvitans á svæðinu til áratuga. En þetta fjallar um fórnir á náttúrugæðum, hvers vegna ætti að leyfa slíkar fórnir. Hver er mögulegur verðmiða ef af því verður! Það er lágmarks krafa til sveitarstjórnarfólks sem ætlar að taka ákvarðanir um slíka uppbyggingu að allar mikilvægar upplýsingar liggi fyrir, það er ekki nóg að hafa von um að eitthvað verði einhvern tímann!
Fundur miðvikudaginn 11.
Sveitarstjórn Rangárþings ytra mun taka framkvæmdaleyfis umsókn Landsvirkjunar til afgreiðslu á fundi sínum miðvikudaginn 11. september nk. Mín tillaga er að sveitarstjórnin bíði með ákvörðun, kynni svo með góðum hætti fyrir íbúum Ry hver raunverulegur ávinningur er af þessari ákvörðun fyrir sveitarfélagið. Oddvitinn er beðin um svör og upplýsingar en ekki hans mat eða skoðun á framkvæmdinni, fólkið í Rangárþingi á það skilið! Norðmenn voru blekktir í mörg ár, það kemur fram í ofannefndri grein ásamt fjölda annarra, gerum ekki sömu mistök og þeir.
Eddukvæði
Margur verður af aurum api er ljóðlína í Hávamálum sem teljast eitt af Eddukvæðum. Þau voru skrifuð niður á 13. öld en höfðu lifað lengi í munnmælum. Ekki ætla ég að sveitarstjórnarfólk í Ry falli undir þetta orðatiltæki en að mínu mati hefur hvergi komið fram á skýran hátt hver raunverulegur ávinningur er af því fyrir nær samfélagið í Rangárþingi að settar verði fyrstu 30 vindmyllur Íslandssögunnar við helstu dyr inn á Hálendi Íslands! Það er lágmarkskrafa að við sem þjóð reynum að læra af þeim sem hafa brennt sig. Í þessu tilfelli eigum við að læra af Norðmönnum sem telja sig hafa verið blekkta og svikna varðandi allt er lýtur að vindmyllum og uppsetningu þeirra. Ekkert í þessari grein oddvitans réttlætir uppsetningu á stórum vindmyllugarði og að mínu mati stendur spurningin eftir sem ekki hefur verið svarað: „Er sátt um vindorkuver“?
Sighvatur Lárusson
Borgari