Víkurskóli sótti um aðild að Erasmus+ áætluninni haustið 2022 og fékk samþykkta aðild í almennum skólahluta (leik- grunn- og framhaldsskólastig) vorið 2023. Aðild að Erasmus+ áætluninni felur í sér samkomulag milli skólans og Rannís, Landsskrifstofu Erasmus+ sem tryggir skólanum fjármagn til evrópsks samstarfs á tímabilinu 2023-2027. Í undirbúningi fyrir aðildarumsóknina var unnin áætlun um alþjóðastarf og sett fram markmið sem fela í sér ýmsan stuðning við skólaþróun innan skólans, veita nemendum tækifæri til þess að taka þátt í samstarfi við nemendur víðs vegar að úr Evrópu og gefa starfsfólki nýja möguleika í endurmenntun.
Með því að fá Erasmus+ aðild er staðfest að Víkurskóli hafi unnið vandaða áætlun um fjölþjóðlegt samstarf og náms- og þjálfunarferðir sem hluta af stefnumörkun til framtíðar. Þeir skólar og stofnanir sem hafa staðfest aðild sína að áætluninni geta framvegis sótt um styrki til náms og þjálfunar á einfaldari hátt. Aðildin snýr eingöngu að náms- og þjálfunarverkefnum og er leið til að einfalda alþjóðastarf skóla og annarra þátttakenda. Í október síðastliðið haust fór hópur nemenda úr 9 og 10.b Víkurskóla, ásamt tveimur kennurum til Gran Kanarí og heimsóttu þar menntaskóla í þorpinu Valsequillo. Á sama tíma voru líka nemendur frá frönskum skóla og þýskum skóla í heimsókn. Nemendur gistu heima
hjá spænskum fjölskyldum og fylgdi „sínum” nemanda bæði í skólanum og í frítímanum. Misjafnt var hvað nemendur fengu að upplifa í frítímanum, sumir tóku þátt í fjölskylduboðum og fótboltamótum á meðan öðrum var boðið í búðaráp. Nemendur voru svo oft að hittast eftir skóla til að fara saman á ströndina.
Farið var í vettvangsferðir á strönd, menningarrölt í bænum Galdar og m.a. var heimsótt stærsta sædýrasafn í Evrópu sem heitir Poema del Mar. Í skólanum fengu nemendur að kynnast mismunandi íþróttagreinum sem eru einkennandi fyrir Kanarí eyjar, m.a. glímu, boccia og dömuspil/tafl ásamt því að þeir fengu taka þátt í ensku- og frönskukennslu hjá eldri nemendum.
Í áætluninni fyrir þetta skólaár var að nemendur og starfsmenn lærðu eitthvað nýtt innan sviðs upplýsingatækninnar og því var lagt upp með að vinna verkefni þar sem nemendur myndu læra að nota forritið Canva til þess að búa til fjölbreyttar kynningar um ákveðið efni. Nemendum var skipt í blandaða hópa úr öllum fjórum skólum og unnu þeir kynningar um mismunandi þjóðgarða Kanaríeyja og einkennandi náttúru þeirra. Þetta voru spennandi og viðburðaríkir dagar og nemendur komu þreyttir, en sáttir og sælir heim úr þessari ferð.
Á vordögunum var svo komið að okkur að taka á móti sex nemendum og tveimur kennurum úr vinaskóla okkar í Buszkowice í Póllandi í heimsókn til okkar. Á dagskrá var meðal annars heimsókn í Fly over Iceland, gönguferð með leiðsögumanni um Þingvelli, Gullfoss og Geysir, Skógafoss og Reynisfjara. Í skólanum fengu þeir kynnast hvernig heilsueflandi skólar starfa og fylgdu okkar nemendur í öllum kennslustundum. Nemendur unnu kynningar í málstofu í samstarfi við Kötlusetur þar sem þeir fengu að þróa og bæta þekkingu sínu í Canva. Í frítímanum var farið í féló, fjöruferðir, skoðað fossa og sumsstaðar var kíkt í fjárhús og fjós. En það voru ekki bara nemendur sem tóku þátt í verkefninu. Í apríl fóru tveir kennarar skólans í tveggja vikna ferð til Holmestrand kommune í Noregi þar sem þeir voru í skuggakennslu í grunnskólanum Hof Skole. Þar fengu þeir að fylgja kennslu frá fyrsta bekk og upp í unglingadeild. Áhersla var lögð á að skoða hvernig skólinn ynni með útikennslu, lestrarnám, stærðfræði og hvernig tölvutækni er notuð í kennslunni. Hof skole er að mestu leyti með námsefni á rafrænu formi sem unnið er í spjaldtölvum (yngra- og miðstig) og fartölvum (unglingastig) og var mjög fróðlegt fyrir okkar kennara að fá innsýn í kosti og galla þess að kenna á þennan máta.
Skólaárið 2023 – 2024 hefur verið viðburðaríkt hjá starfsfólki og nemendum Víkurskóla á sviði samtarfs Erasmus+. Það hefur verið annasamt og mjög lærdómsríkt og hlökkum við til að bæta þekkingu okkar á ýmsum sviðum og menningaheimum enn meira á komandi skólaári.
Victoria Reinholdsdóttir,
umsjónarkennari 9. og 10. bekkjar og umsjónamaður Erasmus+ Víkurskóla