Opið bréf til Sveitarstjórnar Flóahrepps: Nú er ég búin að búa í Flóahreppi síðan árið 2006. Að búa í dreifbýli hefur sína kosti og galla.
Ég á tvær dætur í Flóaskóla sem hafa með pásum stundað íþróttir og tónlistarnám á Selfossi. Nemendur skólans fara í og úr skóla með skólabílum. Af þeim skólabílum sem keyra í og úr Flóaskóla hefur einn stór skólabíll keyrt á Selfoss að skóla loknum og hefur það hentað mér og minni fjölskyldu mjög vel því að oftast hefur verið pláss fyrir dætur mínar í bílnum og þær hafa komist í sínar tómstundir á Selfoss.
Þessi þjónusta skiptir miklu máli fyrir mig þar sem bæði ég og maðurinn minn vinnum á Selfossi og þurfum við því ekki að ná í dætur okkar til að koma þeim á æfingar. Ég geri mér fulla grein fyrir því að það er val mitt að búa í dreifbýli en samsetning sveitarfélags eins og Flóahrepps er ekki eins og hún var. Á mörgum heimilum í hreppnum vinna báðir foreldrar úti og geta ekki komið börnum sínum í tómstundir. Þess vegna hefur verið einstaklega þægilegt og hentugt að hafa þessa þjónustu og vil ég koma á framfæri þökkum til þeirra skólabílstjóra sem hafa komið dætrum mínum örugglega á sinn stað í hverri viku.
Nú er sveitarstjórn Flóahrepps búin skera niður þessa þjónustu. Nú eiga allir nemendur Flóaskóla að fara beint til síns heima að skóla loknum og ekki er pláss lengur fyrir aukabörn í þeim skólabíl sem ekur á Selfoss.
Hvers vegna sú ákvörðun var tekin, geri ég mér ekki almennilega grein fyrir. Ég veit ekki annað en að þessi þjónusta hafi gengið vel og hentað mörgum heimilum vel, ekki bara mínu. Kannski var þessi ákvörðun tekin í sparnaðarskyni? Kannski vill sveitastjórn hverfa aftur til þess tíma þar sem allir voru bara heima hjá sér í sveitinni? Kannski vill sveitastjórn letja ungt fólk með börn til þess að flytja í hreppinn? Hver veit? Að minnsta kosti hafa engar skýringar eða upplýsingar um þetta mál komið frá sveitastjórn sem mér finnst afar undarlegt.
Einu upplýsingarnar sem ég hef um þetta mál eru fundargerðir sveitarstjórnar sem ég legg nú ekki í vana minn að lesa en gerði í þetta skiptið til að afla mér upplýsinga. Í einni fundargerð kemur fram að þjónusta þessi hafi ekki verið kostuð af sveitarfélaginu hingað til. Hafa skólabílstjórar verið taka aukabörn með sér á Selfoss og keyrt þau um allan Selfossbæ af einskærri góðmennsku?
Til að halda þessari þjónustu áfram þykir mér rúmlega sjálfsagt að borga þessu góða fólki fyrir þessa dýrmætu þjónustu. Einnig bárust upplýsingar mér í tölvupósti frá Flóaskóla þar sem Flóaskóli lagði skoðanakönnun fyrir foreldra fyrir hönd sveitarstjórnar. Í þessari könnun var verið að athuga þörfina á því að koma nemendum Flóaskóla í tómstundir á Selfoss.
Ég er ekki með beinharða tölfræði í höndunum og ég veit ekki hver niðurstaða könnunarinnar var en ég veit að þörfin er mikil. Það er mjög erfitt fyrir foreldra að þessi góða þjónusta sé skorin niður eftir öll þessi ár. Við vitum öll hversu mikilvægt það er að börnin okkar eigi sér áhugamál og geti stundað tómstundir og hreyfingu. Það er ansi hart að börnum sé neitað um það að fá far á Selfoss með skólabíl sem er hvort eð er að fara á Selfoss. Þessi niðurskurður á þjónustu bitnar einungis á börnunum.
Ég vonast innilega til þess að þessi mál verði endurskoðuð sem fyrst. Þetta er ekki góð þróun fyrir sveitarfélagið.
Erna Jóhannesdóttir, íbúi í Flóahreppi.