Nú þegar glittir í tvöfaldan Suðurlandsveg berast fréttir af nýjum vegasköttum sem sumir vilja leggja á stofnæðarnar til höfuðborgarinnar. Sú röksemd er helst notuð fyrir þessum nýja skattstofni er að þá greiði þeir fyrir sem noti.
Þessi röksemd heldur ágætlega út af fyrir sig ef ekki væri fyrir sú staðreynd að við borgum vegaskatta af bensíni og olíu. Það sækir því að mönnum sá grunur að hér gæti orðið um tvísköttun að ræða við tvöföldun vegarins.
Eins ánægjulegt og það er að nú sé farið í að tvöfalda Suðurlandsveg er jafn varasamt að hlaupa til og samþykkja nýjan skatt ofan á þá sem fyrir eru af bifreiðanotkun. Bensíngjaldið leggst eðli málsins samkvæmt þyngst á þá sem nota bílana mest og eyða mestu eldsneyti. Þeir eru því raun umhverfisvænni en tollhlið.
Mjög stór hluti af bensínreikningum rennur beint í ríkissjóð og á það fé að nýtast í vegaframkvæmdir. Skuggagjöld eða umferðamælingar geta verið hentug ef menn vilja eyrnamerkja ákveðna framkvæmd og greiða fjármögnunaraðilum eftir notkun vegarins. Þetta væri þá gert án þess að sérstök innheimta leggðist á ferðina.
Þá er rétt að minna á ákvörðun samgönguráðherra um fyrsta áfangann í tvöföldun Suðurlandsvegar sem er um 6.5km. Sú ákvörðun var tekin án þess að fyrir lægi nýr skattur. Það er því ljóst að það eru til fleiri leiðir en nýr skattur í vegamálum og er mikilvægt að halda því til haga.
Eyþór Arnalds, oddviti sjálfstæðismanna í Árborg.