Í Árborg eru fimm framboð fyrir sveitarstjórnarkosningarnar sem fara fram 31. maí næstkomandi.
Það er fjölbreytt fólk sem býður sig fram til starfa fyrir sveitarfélagið. Það gleður mig að sjá að áherslur framboðanna eru um margt líkar. Það þýðir að aðilar úr mismunandi framboðum munu eiga gott samstarf framundan með álíka skoðanir á málefnum. Áherslurnar eru kannski mis mikilvægar eftir framboðum og forgangsröðun ekki nákvæmlega sú sama en öll viljum við sjá sveitarfélag sem er gott að búa í og sem mun halda áfram að vaxa og dafna fyrir íbúana. Það er engin flokkadráttur þar.
Við sem bjóðum okkur fram biðjum íbúa sveitarfélagsins að ráða okkur til vinnu fyrir þá, fyrir okkar allra hag. Það er mjög mikið af öðru starfsfólki sem vinnur nær daglega að hag íbúanna. Það er starfsfólkið sem vinnur í stofnununum okkar, leikskólunum, skólunum, sjúkrahúsinu, sjúkraflutningum, lögreglu, stjórnsýslunni, veitunum og ungmennahúsinu svo fátt eitt sé nefnt. Við sem óskum eftir því að vera ráðin eigum það væntanlega öll sameiginlegt að meta þessi störf og viljum sjá til þess að það sé vel haldið utan um uppbyggingu og úrræði vegna þeirra.
Það er mikilvægt að halda virðingunni fyrir þessu ferli. Að meta það að fjöldi aðila sé tilbúin að bjóða sig fram. Fögnum fjölbreytileikanum og vinnum saman að því mikilvægasta, hag sveitarfélagsins.
Ég heiti Eyrún Björg Magnúsdóttir og er ein af þeim sem sækja um starfið. Ég er fædd og uppalin á Selfossi stolt móðir þriggja, framhaldsskólakennari og kennslustjóri.
Alla tíð hef ég haft áhuga á stjórnmálum, ég man eftir mér 6 ára á leiðinni í skólann að velta fyrir mér ástæðum kjarnorkuhótana milli USA og USSR. Í gegnum skólagönguna hef ég tekið mikinn þátt í félagsstörfum og haft unun af.
Áður en ég lærði til kennsluréttinda við Háskólann á Akureyri lærði ég heimspeki hagfræði og stjórnmálafræði við Háskólann á Bifröst og svo opinbera stjórnsýslu við Háskóla Íslands. Mig langar enn að mennta mig meira og öfunda stundum nemendur mína að eiga allt framhaldsnámið eftir.
Ég hef búið á Selfossi mest allt mitt líf, ég hef reyndar komið við í Reykjavík, á Bifröst, í Brighton – Englandi, Osló – Noregi og Kristianstad í Svíþjóð. Á tímabili trúði ég því að ég myndi ekki koma aftur í Árborg því mér fannst ekki nógu mikið í boði fyrir mig eða börnin. Í dag er ég mjög ánægð með að hafa komið aftur og vil vinna að því að fólk vilji koma aftur, vera áfram eða flytja hingað vegna þess sem sveitarfélagið hefur upp á að bjóða.
Ég trúi á virðingu fyrir umhverfi, mannréttindi, jöfnuð og að gefast ekki upp. Ég hef verið fiðrildi og stundum jafnvel flón en ég tel líka að öll mín reynsla geti gagnast mér í starfi með og fyrir íbúa sveitarfélagsins.
Eyrún Björg Magnúsdóttir, skipar 2. sætið á lista Bjartrar framtíðar í Árborg.