Í lok árs 2015 flutti ég og konan mín til Árborgar. Fyrir okkur hefur þessi tími einkennst af vinsemd, vináttu og öryggi. Samfélag Árborgar hefur tekið vel á móti okkur og er það ekki að ástæðulausu að svo margir, í svipaðri stöðu og við, vilji búa í Árborg. Fjölskylduvænt umhverfi, vingjarnlegt viðhorf íbúa og góð þjónusta eru lífsgæði sem einkenna sveitarfélagið. Hér er gott að vera.
Hækkandi húsnæðisverð á höfuðborgarsvæðinu hefur hvatt marga til að skoða aðra og hagkvæmari búsetukosti. Þessi staða hefur valdið mikilli fjölgun íbúa í sveitarfélaginu, eða sem nemur um 28% frá því að við fluttum hingað fyrir um 6 árum síðan. Til þess að mæta þessari íbúafjölgun hefur sveitarfélagið þurft að ráðast í uppbyggingu nýrra hverfa, leik- og grunnskóla og íþróttahöll svo eitthvað sé nefnt.
Þróun sem þessi er mikil áskorun fyrir sveitarfélagið og hefur þurft að hafa hraðar hendur til að svara eftirspurninni og bregðast við með uppbyggingu innviða, og það á met tíma. Svona mikil uppbygging á svo skömmum tíma er enginn hægðarleikur og krefst vinnu, tíma og fjármuna. Þessi uppbygging er ekki bara einhver kostnaður heldur er þetta fjárfesting, fjárfesting í fólki og framtíðar tekjum fyrir sveitarfélagið.
Mikill mannauður hefur fylgt þessari uppbyggingu og með honum fylgja ný tækifæri. Sem dæmi getur það laðað að stærri fyrirtæki og stofnanir að flytja starfsemi sína til Árborgar. Hlutfall atvinnutækifæra hefur ekki haldið í við fjölgun íbúa í sveitarfélaginu. Það er hlutverk sveitarfélagsins að finna leiðir til að stuðla að eflingu atvinnu og finna jafnvægi í fjárfestingum framtíðarinnar. Einnig þarf að halda þeim innviðum sem fyrir eru sterkum. Við þurfum að hlúa að okkar nærumhverfi og halda áfram þeirri uppbyggingu sem samfélagið kallar á.
Ég tel það tímabært að horft sé á Árborg og nágrannasveitarfélög sem eitt uppbyggingar- og atvinnusvæði. Mikilvægt er að koma sér saman um sameiginlega framtíðarsýn í byggðarþróun með markvissu samstarfi. Þar með skapast tækifæri fyrir samfélögin að nýta styrkleika hvers annars og vega þá upp. Með samtakamætti og samvinnu eru okkur allir vegir færir. Það er samfélaginu til bóta og hagur okkar allra að hugsað sé til framtíðar og vandað sé vel til verka. Þannig fjárfestum við fólki, samfélaginu og framtíðinni.
Stefán Gunnar Stefánsson
Frambjóðandi í 1. sæti í prófkjöri Framsóknarflokksins í Árborg fyrir komandi sveitarstjórnarkosningar.