Fræ sem verða blóm

Silja Dögg Gunnarsdóttir. Ljósmynd/Aðsend

Mennt er máttur og menningin auðgar andann og því þurfa mennta- og menningarstofnanir okkar að vera lifandi og kröftugar. Undirrituð hefur átt sæti í allsherjar- og menntamálanefnd síðustu misseri og fengið að fylgja eftir nokkrum málum í gegnum nefndina sem menntamálaráðherra, Lilja Alfreðsdóttir hefur lagt fram. Þar eru mál sem þjóna að sjálfsögðu landinu öllu en líka nokkur verkefni sem snúa beint að Suðurlandinu og ætla ég að rekja nokkur þeirra hér.

Menningarsalurinn
Menningarsalurinn í Hótel Selfossi hefur staðið fokheldur í tæp 40 ár. Í fjárlagafrumvarpi ársins 2021 var aukafjárveiting upp á 140,5 milljónir króna til framkvæmda við menningarsalinn og gert er ráð fyrir annarri eins upphæð árið 2022. Framkvæmdirnar eru hluti af fjárfestingarákvæði ríkisstjórnarinnar til að sporna gegn niðursveiflu í efnahagslífinu í kjölfar heimsfaraldurs kórónuveirunnar. Stefnt er á að framkvæmdum við salinn verði lokið á næstu tveimur árum. Við getum verið sammála um að nýr menningarsalur verði mikil lyftistöng fyrir menningarlíf á Suðurlandi.

Niðurfelling námslána
Meðal þeirra framfaramála sem Alþingi hefur samþykkt frá menntamálaráðherra á kjörtímabilinu eru lög um lýðskóla, lög um Menntasjóð sem fela m.a. í sér 30% niðurfellingu á námslánum, styrki til barnafólks og afnám ábyrgðamannakerfisins, menntastefna, kvikmyndastefna, lög um leyfisbréf kennara, hvatar til fjölgunar nema í kennaranámi og nýlega samþykkti Alþingi lög um breytingum á aðgengi í háskóla. Nú getur fólk sem hefur lokið 3. hæfnisstigi í starfs- eða tækninámi fengið aðgang í háskólanám. Nú gildir ekki einungis stúdentspróf, eins og áður. Ég tel að þessi breyting svari kalli atvinnulífsins um fjölbreyttari hæfni á vinnumarkaði, sér í lagi hæfni á tæknisviði og starfsmenntun.

Ný heimavist
Ákall var um að komið yrði upp heimavist fyrir nemendur FSu sem geta ekki farið daglega á milli heimilis og skóla vegna fjarlægðar. Sér í lagi fyrir yngri nemendur. Ráðherra tók vel í hugmyndina og heimavistin var opnuð sl. haust. Ásókn hefur verið minni en gert var ráð fyrir sem skýrist fyrst og fremst af áhrifum Covid-19. Ný heimavist er ánægjuefni fyrir Sunnlendinga enda er um að ræða lykilþátt þess að tryggja jafnrétti til náms fyrir ungmenni í landshlutanum.

Græn framtíð
Málefni Garðyrkjuskóla Íslands eru á borði ráðherra til úrlausnar og ég geri ráð fyrir að niðurstaðan verði farsæl fyrir framtíð garðyrkjunáms hér landi. Markmiðið er að efla garðyrkjunámið. Við sem tölum fyrir grænni framtíð og aukinni sjálfbærni, vitum að öflug menntastofnun á þessu sviði gerir þessi framtíðarsýn okkar að raunhæfum möguleika.

Silja Dögg Gunnarsdóttir,
þingmaður Framsóknarflokksins

Fyrri greinSkrúðgarðyrkjumeistarinn sem endaði í leiktækjunum
Næsta greinEldur kviknaði í blómakeri