Framtíð Hamarshallarinnar

Hvergerðingar urðu fyrir miklu eignatjóni í einu fárviðra vetrarins þegar Hamarshöllin féll. Þetta var mikið áfall fyrir íþróttalífið það þurfti að gera ráðstafanir og fá hjálp úr öðrum sveitarfélögum svo sem minnst rof yrði á æfingum barnanna. Þakkir til allra þeirra sem hafa lagt hönd á plóg til að halda starfinu gangandi og þakkir til sjálfboðaliðanna sem tóku þátt í því að hreinsa til og koma dúknum í verð sem lið í fjáröflun fyrir íþróttafélagið Hamar.

Hvað segja gögnin?
Á bæjarstjórnarfundi Hveragerðisbæjar þann 13. apríl síðastliðinn var tekin fyrir skýrsla verkfræðinga sem hafði að geyma þá kosti sem væru í stöðunni til uppbyggingar. Ákveðin vonbrigði voru þó með skýrsluna þar sem hún hafði ekki að geyma öll þau gögn sem bæjarráð hafði óskað eftir. Minnihlutinn, fulltrúar Framsóknar og Okkar Hveragerðis fóru þá
á leit við aðila sem gaf verð í stálgrindarhús með dúk en upphitað. Verðið og tímarammi uppsetningar var í takt við loftborið hús.

Nýjar upplýsingar
Með nýjar upplýsingar í sínum fórum óskuðu fulltrúar Framsóknar og Okkar Hveragerðis eftir því að skýrslan yrði lögð fram til kynningar en ákvörðun yrði tekin á næsta bæjarstjórnarfundi eða 28. apríl næstkomandi. Mikla virðingu hefði ég borið fyrir þeirri ákvörðun, hefði meirihluti Sjálfstæðismanna verið tilbúin til á hlusta á kynningu í ljósi nýrra
gagna og þá jafnvel hægt að slá þá tillögu alveg út af borðinu reyndist hún ekki raunhæf. Mögulega er dúkhýsi besta lausnin, mögulega er samt sem áður stálgrindarhús með dúk, upphitað ákveðin millilending í þessu máli.

Framtíðin
Það er gríðarlega mikilvægt í öllu ferli innan sveitarstjórnar að taka upplýsta ákvörðun um verkefnin á grundvelli faglegra gagna. Það er einnig mikilvægt að skapa sem mesta sátt í bæjarfélaginu um framtíð íþróttastarfsins og það gerum við á grundvelli upplýsingar. Þannig viljum við í Framsókn í Hveragerði vinna.

Jóhanna Ýr Jóhannsdóttir,
bæjarfulltrúi Framsóknar og skipar 1. sæti lista Framsóknar í Hveragerði

Fyrri greinAðlagast lífinu á Hvolsvelli hægt og rólega
Næsta greinDatt í sjóinn á þjóðhátíð