Framtíð Sigtúnsgarðsins

Björgum því sem bjargað verður

Staðan nú
Mörg ár eru liðin síðan ákveðið var að byggja upp bæjargarð í miðbæ Selfoss sem ætlaður yrði til útivistar og samkomuhalds. Útlit garðsins var hannað fyrir u.þ. b. þremur áratugum og framkvæmdir hófust með uppbyggingu mana sem gróðursett var í og malbikað plan þar sem kvöldskemmtanir vegna 17. júní og „Sumars á Selfossi“ hafa farið fram. Þá var malbikaður göngustigur lagður í gegnum svæðið. Árið 2013 var svo hóað til samkomu og garðinum gefið nafnið Sigtúnsgarður við hátíðlega athöfn með tilheyrandi myndatökum og ræðuhöldum. Siðan hefur ekkert gerst nema að svæðið hefur í tvígang verið minnkað og og það sem af var tekið afhent Miðbæjarfélaginu því að kostnaðarlausu. Því er nú svo komið að aðeins stendur eftir helmingur af svæðinu sem garðinum var ætlað og ef áfram heldur sem horfir mun Miðbæjarfélagið eignast afganginn án greiðslu. Óstaðfastar fregnir herma að félagið hafi nýlega óskað eftir því að fá þriðjung af því sem nú stendur eftir.

Fyrir utan þann seinagang og aðgerðaleysi sem hér hefur verið lýst hefur sveitarfélagið gengið mjög illa um þessa eign sína, viðhald og umhirða í algjöru lágmarki og bæjaryfirvöldum til skammar. Í umræðum á netinu um þessa stöðu bar einn af forvígismönnum bæjarstjórnarinnar fyrir sig að ástæða þessa væri peningaskortur. Sú skýring er hrein fásinna, bæjarfélagið hefur á þeim tíma sem liðinn er oft staðið ágætlega og þar að aukið eru framkvæmdir við garðinn ekki sérlega kostnaðarsamar. Ég þekki vel til í Hafnarfirði. Þar er frágangur gróðurs og umhverfis og umhirða til mikillar fyrirmyndar þrátt fyrir að rekstur bæjarfélagsis hafi verið erfiður á köflum. Ég var nýlega í Vestmannaeyjum þar sem framkvæmdum var að ljúka við stórt frábærlega hannað almenningstorg niður við höfnina með fjölbreyttum og vönduðum leiktækjum ásamt fyrirtaks aðstöðu til samkomuhalds. Rekstur þess bæjarfélags hefur verið síst betri í gegnum tíðina en í okkar sveitarfélagi.

Hvað er til ráða
Augljóst er að bregðast þarf fljótt við til að bjarga því sem bjargað verður. Endurhanna þarf þann hluta sem nú er ætlaður garðinum og hefja síðan framkvæmdir eins fljótt og verða má. Þrýsta verður á bæjaryfirvöld og heppilegast væri að félagasamtök i bæjarfélaginu létu til sín taka. Þau hafa í gegnum sögu sveitarfélagsin oft hrundið að stað mikilvægum verkefnum sem varða almannaheill. Þar má nefna sjúkrahúsið gamla við Austurveg sem Kvenfélag Selfoss beitti sér fyrir. Það góða félag hafði einnig forgöngu um fyrsta leikskólann í bænum sem og leikvöll við Heiðarveg sem þótti einn sá sá allra besti á landinu. Rótarýklúbburinn hafði forgöngu um stofnun tónlistarskóla og Skálafélagið gerði upp Tryggvaskála, elsta hús bæjarins. Skógræktarfélagið stóð að gerð Tryggvagarðs snemma á fimmta áratugnum auk frabærs útivistarsvæðis í Hellismýrinni fyrir utan á. Öll þessi verkefni voru síðan studd af sveitarfélaginu.

Ég skora hér með á almenning og áhugamannafélög að láta málið til sín taka.

Þorvarður Hjaltason

Fyrri greinSameining deilda VR á Suðurlandi
Næsta greinKolbrún Katla íþróttakona Flóahrepps 2023