Í síðustu sveitarstjórnarkosningum sem fram fóru 29. maí 2010 voru tveir listar í framboði í Hveragerði.
Þar var D-listi Sjálfstæðisflokksins og A-listinn sameiginlegt framboð Framsóknarflokks, Samfylkingar og Vinstri-grænna.
Um framboð A-listans skrifaði Björgvin G. Sigurðsson, fyrrv. ráðherra, grein á vefmiðlinum Pressan þar sem hann talaði um að í Hveragerði hafi verið kynntur sterkur og öflugur listi sem yrði framtíðarmódel félagshyggjuaflanna á Íslandi, en framtíðarmódel félagshyggjuaflanna er í raun eldgamalt og fullreynt módel Sovíetríkjanna.
Svo skrifar hann „Hvergerðingarnir marka nú framtíðarsporin og verður það góða gengi sem framboðinu er spáð okkur vonandi raunsönn lexía um hve miklu má áorka í sameinuðu breiðu afli frá miðju lengst til vinstri.“ Þegar kosningum var lokið og lokatölur voru birtar kom í ljós að Björgvin G. Sigurðsson, fyrrverandi ráðherra hafði rangt fyrir sér, A-listinn sameiginlegt framboð Framsóknarflokks, Samfylkingar og Vinstri-grænna fengu aðeins 445 atkvæði eða 35,6% atkvæða og tvo menn inn í bæjarstjórn en Sjálfstæðisflokkurinn í Hveragerði fékk 804 atkvæði eða 64,4% atkvæða og fimm menn inn í bæjarstjórn, stærsti sigur Sjálfstæðisflokksins á landsvísu í sveitarstjórnarkosningunum var í Hveragerði.
Á þeim níu mánuðum sem liðnir eru frá því að kosningar fóru fram, hefur maður oftar en einu sinni orðið var við rifrildi á milli þeirra sem voru á lista A-listans og sést þar að það er lítil sem engin samstaða innan þessa sameiginlega framboðs, eru þar þá einna helst Framsóknarmenn og Samfylkingarmenn sem eru að deila um hin ýmsu málefni.
En athyglisverðara er það þó að sjá að Róbert Hlöðversson sem var í fyrsta sæti á lista A-listans fyrir kosningar og var kjörinn bæjarfulltrúi A-listans í Hveragerði titlar sig nú sem bæjarfulltrúi Samfylkingarinnar í Hveragerði bæði á Fésbókarsíðu sinni og í grein sem kom út í nýjustu útgáfu Hverafuglsins. Það er því spurning fyrir hvaða lista Róbert starfar sem bæjarfulltrúi, Samfylkinguna eða A-listann.
Getur það hugsast að draumsýn Björgvins G. sé klofin í herðar niður líkt og A-listinn í Hveragerði?
Höfundur er varaformaður Asks, félag ungra sjálfstæðismanna í Hveragerði.