Lengi hefur staðið til af hálfu fangelsisyfirvalda að byggja gæsluvarðahaldsrými sem leysti af hólmi afdankað húsnæði t.d. á Skólavörðustígnum.
Þessi stefnumið eru tilkomin þar sem núverandi húsnæði er úrelt. Hefur að auki verið átalið sem mannréttindabrot af alþjóðastofnunum að hýsa þar menn.
Rætt hefur verið um í gegnum tíðina, að því tilskyldu að skýr ákvörðun liggi fyrir að áfram verði byggt upp öflugt öryggisfangelsi á Litla-Hrauni, að reisa gæsluvarðhaldsrými á höfuðborgarsvæðinu í stað þess gamla. Forsendan hefur ávallt verið sú að það sé ekki vísir að því að færa öryggisfangelsið að austan suður.
Á Litla-Hrauni hefur um áratugaskeið verið rekið öflug fangelsi. Mikil þekking og mannauður er til staðar á heimavelli. Starfsemin gengur vel og er til fyrirmyndar. Hana á að efla og styrkja með áframhaldandi uppbyggingu.
Um slíka uppbyggingu öryggisfangelsis hefur verið samstaða þvert á flokka. Sem betur fer hefur málaflokkurinn að mestu verið laus við skotgrafahernað flokkastjórnmálanna og unnið að stórum ákvörðunum í þokkalegri sátt allra þeirra sem að koma. Sveitarfélaga, fangelsisyfirvalda, þingmanna og ríkisstjórnar á hverjum tíma.
Nú má segja að nýrra beri við. Fréttir berast af því að „ákveðið“ hafi verið af ráðherra málaflokksins, innanríkisráðherra, að nýtt fangelsi sem sagt er bæði gæsluvarðhalds- og öryggis eigi að byggja á Hólmsheiði fyrir tvo milljarða króna. Engin stefnumörkun hefur verið kynnt í samhliða og óljóst um áætlanir um áframhaldandi uppbyggingu á Litla-Hrauni og eflingu þeirrar starfsemi. Bæði út frá hagkvæmni og faglegum forsendum.
Að byggja áfram þar sem byggt hefur verið. Þannig má spara stórfé í frumkostnað við nýtt fangelsi í 50 km. fjarlægð sem nú telst til sama svæðis í atvinnulegu og félagslegu tilliti.
Alþingi ákveður – ekki innanríkisráðherra
Björn Valur Gíslason þingmaður Vg skrifaði ágæta grein um þetta mál á dögunum á heimasíðu sína sem heitir Ráðherra þetta og ráðherra hitt. Þar segir Björn m.a.; „Hún er dálítið undarleg umræðan um hvað ráðherrar segjast hafa ákveðið og hvað ekki. Ráðherra tekur ákvörðun um að ráðast í opinbera byggingu,.. ríkisstjórn tekur ákvörðun um að fjármagna skuli með einum eða öðrum hætti. Eða svo er sagt. Þetta er bara ekki svo einfalt. Það er Alþingi sem ákveður. Það er Alþingi sem mótar stefnuna. Það er Alþingi sem ráðstafar fjármunum. Ráðherrar og ríkisstjórn annast svo framkvæmdina.
Þetta var lengst af með öðrum hætti en reyndist ekki mjög vel.
Eitthvað hljótum við að læra af fortíðinni.“
Kjarnyrt hjá Birni Val. Eftir stendur því að við sem sitjum í fjárlaganefnd, sem erum t.d. bæði ég og Björn Valur, og aðrir þingmenn á Alþingi Íslendinga höfðum enga ákvörðun tekið um hvar skuli byggja nýtt fangelsi. Þaðan af síður falið innanríkisráðherra að annast slíka framkvæmd.
Því er það ekki svo að þó að ráðherra flaggi ákvörðun um nýtt fangelsi á Hólmsheiði þá hefur engin slík ákvörðun verið tekin af fjárlagavaldinu. Alþingi sjálfu. Tillaga innanríkisráðherra um bygginguna verður auðvitað metin og afgreidd af þinginu en það er langt frá því að komið sé að því. Enda skortir allt mat og forsendur til þess.
Því er þetta í besta falli undarleg og ótímabær umræða um nýja fangelsisbyggingu á öðrum stað en hún er nú starfrækt á. Fagna ég fastri framgöngu bæjarstjórnar Árborgar í málinu og hvet þau til samstöðu um að áfram skuli byggt upp á Litla- Hrauni.