Glæðum landsbyggðina nýju lífi

Geirangerfjord í Noregi 2015. Á myndinni eru Heiðbrá Ólafsdóttir, Jóhann Rúnar Sævarsson og hundurinn Boli. Ljósmynd/Aðsend

Að flytjast búferlum og víkka þar með sjóndeildarhringinn er gott veganesti út í lífið. Ég og maðurinn minn tókum þá ákvörðun að flytjast búferlum til Noregs á sínum tíma. Ég stundaði nám við lagadeild háskólans í Ósló og lauk þaðan mastersprófi. Í framhaldi starfaði ég síðan hjá sendiráði Íslands í Osló.  Maðurinn minn er búfræðingur að mennt og aflaði hann sér frekari reynslu innan norska landbúnaðarins. Víkkði hann þar með sinn landbúnaðarsjóndeildarhring. Við bjuggum alls sex ár í Noregi. Fyrst í Heiðmörk og síðar í litlum bæ sem heitir Frogner. Landbúnaður á hug og hjörtu okkar og stundum við í dag mjólkurframleiðslu í Rangárþingi.

Horfum til Noregs – ferðir til og frá vinnu niðurgreiddar fyrir landsbyggðafólk
Samgöngur í Noregi eru góðar og auðvelt að stunda nám eða atvinnu fyrir þá sem búa á landsbyggðinni. Algengt er að vinnustaðir bjóði starfsmönnum að vinna heima hluta úr viku eða eftir öðru fyrirkomulagi, svokallað hjemmekontor.  Það eru ekki eingöngu góðar samgöngur og sveigjanlegur vinnutími sem styrkir búsetu á landsbyggðinni í Noregi heldur einnig fjárhagslegir hvatar af hálfu hins opinbera. Ferðir til og frá vinnu eru niðurgreiddar sem nemur fastri fjárhæð fyrir hvern ekinn km.  Önnur leiðin þarf að vera að lágmarki 33 km og er niðurgreiðslan óháð því hvernig viðkomandi kemur sér til vinnu, hvort heldur með lest, strætó, einkabíl eða í samfloti með öðrum. Ef hjón keyra saman þá getur hvort um sig sótt um niðurgreiðslu.

Sértækur stuðningur fyrir ákveðin búsetusvæði
Í Noregi eru fjárhagslegir byggðahvatar fyrir ákveðin búsetusvæði.  Meginmarkmiðið er að skapa aðlaðandi búsetuskilyrði fyrir fjölskyldur í þeim tilgangi að styrkja og efla brothættar byggðir. Fjárhagslegu byggðahvatarnir fela m.a í sér lægri tekjuskatt, niðurfærslu á námslánum sem og niðurfellingu námslána fyrir grunnskólakennara. Þessu til viðbótar eru fyrirtæki á svæðinu undanþegin tryggingargjaldi.

Framtíð Suðurlands
Það er mikilvægt hagsmunamál fyrir íbúa Suðurlands þar sem mikill fólksflutningur hefur verið til svæðisins nærsíðastliðin ár einkum sökum hækkandi fasteignaverðs á höfuðborgarsvæðinu að þessi mál verði skoðuð með það að markmiði að styrkja búsetuskilyrði Suðurlands til framtíðar.

Við hjónin keyrðum eitt sumarið til Þrándheims. Vorum við heilluð að því hversu blómleg og lifandi landsbyggðin er í Noregi, litlir þéttbýliskjarnar allt um kring og iðandi mannlíf. Það er gömul saga og ný að það er margt sem við getum lært af frændum okkar í Noregi.

Víkkum sjóndeildarhring byggðamála á Íslandi. Sköpum fjárhagslega byggðahvata. Eflum sveigjanleika atvinnulífsins. Glæðum landsbyggðina nýju lífi – fyrir Ísland allt.

Heiðbrá Ólafsdóttir,
höfundur er lögfræðingur, kúabóndi og formaður Miðflokksdeildar Rangárþings.

Heimildir:
https://www.regjeringen.no/no/tema/kommuner-og-regioner/regional–og-distriktspolitikk/Berekraftig-regional-utvikling-i-nord/virkemidler-i-tiltakssonen/id2362290/

https://www.smartepenger.no/skatt/640-reiseutgifter

Fyrri greinÞórsarar sannfærandi eftir COVID-hlé
Næsta greinÁtta í einangrun á Suðurlandi