Heyrst hefur af uppgjöf um rekstur Kötlu jarðvangs. Það eru afar sorglegar fréttir fyrir svæðið, sveitarfélög, atvinnulíf og íbúa svæðisins.
Í dag er svæðið einstakt á heimsvísu og er það vottað af UNESCO. Svæðið er Katla UNESCO Global Geopark. Svæðið er einstakt, af því að þar getur þú séð hvernig náttúruöflin með eldi og ís, hafa mótað náttúru og landslag svæðisins og þannig haft áhrif á þróun samfélags og menningu þess. Með þetta í huga hefur svæðið skapað sér sérstöðu og tækifæri fyrir atvinnulíf og samfélag innan svæðisins. Við höfum tækifæri til að auka verðmæti varanna okkar og leita leiða til að stöðva hagleka.
Ekki bara huggulegt verkefni fyrir ferðaþjónustuna
Jarðvangar eru starfræktir um allan heim. Engir þeirra eru eins enda hafa þeir alla sína sögu að segja. Jarðvangar eru þróaðir á þann hátt að þeir eru samstarfsvettvangar sem styðja við þróun atvinnulífs og samfélags á þeim svæðum sem þeir starfa á. Þannig geta verkefnin verið fjölbreytt, hvort sem þau miða að ferðaþjónustu, stjórnsýslu, landbúnaði, menningu, fræðslu eða skólastarfi. Jarðvangar eru verkfæri til byggðaþróunar og eru mjög aðlögunarhæfir að aðstæðum hverju sinni, því ættu verkefnin að miðast við þær áskoranir sem svæðin standa frammi fyrir.
Hvað getur jarðvangurinn gert fyrir þig?
Verkefnin sem vinnast geta verið í formi beinnar aðkomu, framkvæmda og fleira. En mörg verkefnin snúa að því að byggja brýr, veita innblástur og skapa tækifæri fyrir íbúa, fyrirtæki og stofnanir á svæðinu. Þannig að aðilar geti fundið leiðir til að efla sína starfsemi og geti skapað meiri virðisauka, í vöruþróun, nýsköpun eða fjármögnun.
Meðal þess sem getur verið erfitt að festa hendur á er stuðningur við íbúa og menningarstarf. En til að taka dæmi, fyrir nokkrum árum, voru starfsmenn Kötlu jarðvangs meðal fyrstu aðila til að styðja við hugmynd kvenna á svæðinu með því að veita þeim ráðgjöf, koma þeim að í Evrópuverkefni um handverk í hérðaði og þannig veita þeim þann stuðning og sjálfstraust sem þurfti til að leggja í risavaxið verkefni fyrir svæðið. Í dag þekkið þið það sem Njálurefilinn.
Ástæða þessara hugleiðinga er þó ekki að telja upp þau verkefni sem unnið hefur verið að en þau eru þónokkur sem hafa unnist á þessu tímabili bæði hjá Kötlu jarðvangi og eins hjá Reykjanes jarðvangi þar sem ég kem að verkefnum í dag. Ekki síður hefur töluvert fjármagn komið inn á svæðin á þessu tímabili til að ýta undir vegferð þeirra verkefna sem unnið er að hverju sinni.
Og hvað svo?
Hefur stjórnin eða sveitarfélögin kortlagt verkefnin, mótað sér stefnu og listað upp þær sameiginlegu áskoranir sem þau standa frammi fyrir í dag og skoðað hvort jarðvangurinn sé leið til að vinna að lausnum?
Það er enginn að segja að það sé einfalt eða auðvelt að reka jarðvang, en að leggja hann niður er dýr pólitísk leið til að glata sérstöðu svæðis og tækifærum til framtíðar. Ef hagsmunaaðilar jarðvangsins hafa ekki trú á eigin verkefni, getu til framkvæmda og tilbúin að bakka það upp með fjármagni, þá er enginn til í að taka boltann.
En eruð þið í alvörunni til í að hætta með verkfæri sem vinnur þvert á landamæri og getur stutt við atvinnulíf og samfélögin á svæðinu af því að þið höfðuð ekki tíma eða nennu til að koma ykkur inn í málin?
Þið getið gert betur!
Þuríður Aradóttir Braun
Höfundur á aðsetur í Fljótshlíð, er fyrrum markaðs- og kynningarfulltrúi Rangárþings eystra, kom að stofnun Kötlu jarðvangs, er ráðgjafi fyrir Reykjanes jarðvang og situr í ráðgjafaráði netverks evrópskra jarðvanga (European Geoparks Network).