Á Íslandi höfum við allt sem okkur dettur í hug og eru lífsgæði Íslendinga einhver sú bestu sem til eru.
Með betri lífsgæðum verður hærri lífsgæðastaðall og eigum við því oft til með að gleyma því hversu gott það er að búa á Íslandi. Það eitt að geta farið inn í eldhús og fengið sér vatnsglas beint úr krana telst til mikilla lífsgæða sumstaðar í heiminum. Svo virðist sem að þegar maðurinn hefur náð ákveðnum lífsgæðum tapist sýnin á framtíðina og aðeins er hugsað um núið. Nauðsynlegt er að staldra við og spyrja hvernig viljum við að Ísland verði eftir 1 ár, 5 ár eða 100 ár. Allar áætlanir verða að taka mið af því að skila landinu til komandi kynslóða í ekki verra ástandi en núlifandi kynslóð tók við því.
Umhverfið skiptir alla máli
Svo dæmi séu tekin þá finnst mér að Íslendingar ættu að ýta meira undir rafvæðingu ökutækja og vera þar af leiðandi ekki háð öðrum þjóðum er varðar orkugjafa eins og eldsneyti. Mér finnst að Íslendingar ættu að horfa lengra fram í tímann er varðar ræktun matvæla í gróðurhúsum og fiskeldi og gera sér framtíðarplön með þær auðlyndir sem við höfum svo mikið af, eins og vatn, rafmagn og land. Auðvitað þurfa plön okkar að ganga út frá því að ekki sé vegið að heilsu fólks, náttúrunni okkar og að ekki sé vegið að hagsmunum þjóðarinnar.
Hellisheiðarvirkjun
Mér finnst við hafa sofnað á verðinum þegar Hellisheiðarvirkjun var byggð. Þar er illa farið með náttúruna og það er illa farið með lífsgæði fólks í næsta nágrenni. Þetta kennir okkur það að standa betri vörð í framtíðinni og hugsa lengra fram í tímann þegar farið er í svona framkvæmdir. Með þessa punkta að leiðarljósi stendur okkur ekkert í vegi að halda áfram til framtíðar og að gera gott Ísland enn betra.
Guðjón Óskar Kristjánsson, 3. sæti Samfylkingin og óháðir í Hveragerði