Ég vinn á bráðamóttöku. Yfirleitt er veikt fólk ekki sterkur þrýstihópur og er því ekki í aðstöðu til að standa vörð um nauðsynlega þjónustu eða knýja á um bætur á henni.
Það lýsir samfélagi og forgangsröðun þess, hvernig við búum að veiku fólki. Á bráðamóttökuna kemur oft aldrað fólk sem er að byrja að missa heilsuna. Það kemur í fylgd með áhyggjufullum ástvinum sem leita leiða til að tryggja hinum aldraða öryggi og nauðsynlega þjónustu þegar heilsan er að bresta.
Þegar fólk finnur að það getur ekki lengur treyst á eigin heilsu, er það áfall, öryggiskenndin minnkar og þá fer oft að halla undan fæti. Það verður óöruggt að vera heima þó það þurfi ekki beinnar hjúkrunar við dags daglega, einungis vissuna um að einhver líti inn og aðstoði við það sem þarf. Hvort sem það er heimahjúkrun á vegum heilsugæslunnar eða heimilisaðstoð á vegum sveitarfélagsins. Þessa þjónustu verður að tryggja fyrir alla þá sem á þurfa að halda.
Ekki bíða eftir hjúkrunarheimili – það þarf að sækja það
Stundum er augljóst að hinn aldraði getur ekki búið heima mikið lengur og þarfnast varanlegra úrræða á hjúkrunarheimili. Þá eru góð ráð dýr. Langir biðlistar eru eftir hjúkrunarplássum og satt að segja hefur þolinmæði bæjarstjórnar gagnvart heilbrigðisyfirvöldum, verið með eindæmum. Það ætti ekki að koma neinum á óvart að eftirspurnin eftir hjúkrunarplássum eykst stöðugt.
Þegar um er að ræða jafn veikan þrýstihóp og aldraðir eru, er það að mínu mati á ábyrgð bæjarstjórnar að gæta hagsmuna þeirra. Það er reynsla mín eftir áralanga hagsmunabaráttu innan heilbrigðiskerfisins fyrir barnshafandi fjölskyldur, að þolinmæði á ekki við þegar sækja þarf sjálfsögð réttindamál. S-listinn í Árborg mun ganga hreint til verks í baráttu fyrir sómasamlegum aðbúnaði þeirra með markvissri og öflugri sókn að heilbrigðisyfirvöldum, svo bygging nýs hjúkrunarheimilis á Selfossi verði að veruleika hið fyrsta.
Forgangsröðun í þágu íbúa
Samfylkingin blæs einnig til sóknar í öðrum velferðarmálum og má þar nefna:
- Hækka endurgreiðslur til þeirra sem nota þjónustu dagforeldra í 40.000 kr. og vinna að fjölgun leikskólaplássa svo börn komist yngri inn á leikskóla.
- Stuðla að byggingu leiguíbúða fyrir ungt fólk og tekjulágar fjölskyldur, með því að leiða saman lífeyrissjóði, búsetufélög og byggingafyrirtæki til að mynda traustan leigumarkað.
- Fara strax í að undirbúa fjölgun búsetuúrræða fyrir fatlað fólk.
- Stækka félagsaðstöðu aldraðra með því að byggja við í Grænumörk.
- Auka stuðningsúrræði við fjölskyldur fatlaðra barna.
Hér þarf fyrst og fremst vilja og baráttuþrek til að hlúa að þeim sem minnst mega sín. Varðstaða um öfluga velferð óháð efnahag og félagslegri stöðu er kjarninn í stefnu Samfylkingarinnar, enda flokkurinn grundvallaður á sjónarmiðum félagshyggju og jöfnuðar. Því munum við ráðast í velferðarsókn í Árborg.
Guðlaug Einarsdóttir, ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur á HSu og skipar 3. sæti á S-lista í Árborg.