Ljósleiðari inn á hvert heimili er krafan í dag og sveitarstjórnarmenn taka undir. Í stað þess að sameinast og krefjast þess með afgerandi hætti að ríkið tryggi lagningu ljósleiðara um landið er gefið eftir.
Sveitarfélögin fara sjálf í verkefnið og mörg eru að undirbúa það að fara í verkið eða leggja til þess fé.
Um mjög kostnaðarsama framkvæmd er að ræða og virðist kostnaður vera frá 100 milljónum og upp í nokkur hundruð fyrir hvert og eitt sveitarfélag.
Þetta er skiljanlegt að því leiti að ljósleiðari og öll þau tækifæri sem háhraða interneti fylgja eru öllum íbúum nauðsynleg og eiga að vera jafn sjálfsögð og aðgangur að síma og rafmagni.
Það að ríkisvaldið sýni af sér slóðahátt og stefnuleysi í ljósleiðaravæðingu á ekki að leiða það af sér að sveitarfélögin leggi fé sitt í ljósleiðaravæðingu.
Það dettur ekki nokkrum manni í hug að sveitarfélög eigi að setji upp endurvarpa fyrir farsíma, setji niður streng fyrir síma eða að malbika þjóðveg. Það er einfaldlega gert af þeim sem eiga að sjá um þessa þjónustu.
Það má færa fyrir því ágæt rök að með því að sveitarfélög séu að leggja ljósleiðara að þá sé í raun verið að viðhalda óbreyttu ástandi og minnka líkur á því að ríkið tryggi að ljósleiðari verði lagður um landið.
Það þarf að leggja fram áætlun um ljósleiðaravæðingu með nákvæmlega sama hætti og t.d. vegaáætlun. Ákveðið fé er sett í verkefnið og það er svo sveitarstjórna að hafa skoðun á því með hvaða hætti því er ráðstafað á hverjum tíma.
Ríkið þarf einnig að svara afhverju Landsneti eða RARIK sem bæði eru í opinberri eigu og búa yfir mjög öflugu dreifikerfi sem markvisst er verið að efla sé ekki falið það verkefni að byggja upp og reka dreifikerfi fyrir ljósleiðara, með sambærilegum hætti og þeim hefur af ríkinu verið falið að reka dreifikerfi fyrir rafmagn um allt landið.
Sveitarstjórnir eiga ekki að nýta fé sitt í ljósleiðararvæðingu. Sveitarstjórnir eiga að snúa bökum saman og tryggja það að ljósleiðari komist inn á hvert heimili og sé lagður af þeim sem það á að gera.
Eitt mikilvægasta verkefni sveitarstjórnarmanna er að tryggja að vel sé farið með fé og að tryggja skynsama ráðstöfun fjármuna, það á ekki að ráðstafa fjármunum sveitarfélaga í ljósleiðaravæðingu.
Guðmundur Ármann Pétursson.
Höfundur er sveitarstjórnarmaður.