Guðmundur Ármann: Miklar skuldir og áætlun sem ekki stenst

Ársreikningur Grímsnes- og Grafningshrepps var lagður fyrir sveitarstjórn á síðasta fundi þann 6 maí. Það er augljóst að ná þarf betur utan um rekstur sveitarfélagsins.

Rekstrarniðurstaða sveitarsjóðs (A hluta) var jákvæð um 26.7 m.kr. en áætlun hljóðaði upp á jákvæða niðurstöðu að fjárhæð 135.2 m.kr. Þrátt fyrir jákvæða niðurstöðu þá er þetta 108 m.kr. verri niðurstaða en áætlun gerði ráð fyrir.

Frávik eru helst að tekjur voru 62.1 m.kr. undir áætlun, laun og launatengd gjöld fóru 19.1 m.kr. yfir áætlun, annar kostnaður er 24.8 m.kr yfir áætlun.

Minni tekjur skýrast helst af því að gert var ráð fyrir 57 m.kr. hagnaði af sölu á golfvelli sveitarfélagsins við Borg, menn eru vonandi að átta sig á því að það er hóflega viturlegt að tekjufæra „fugl í skógi“.

Það er ánægjulegt að rekstur fráveitu, hitaveitu og vatnsveitu er betri en áætlanir gerðu ráð fyrir. Við þurfum að vinna áfram á þeirri braut og markmiðið á að vera að veiturnar geti að fullu fjármagnað rekstur, viðhald og aukna uppbyggingu á veitukerfum sveitarfélagsins.

Skuldahlutfall sveitarfélagsins var 152% við síðustu áramót, þetta er allt of hátt og þegar við bætist að sveitarfélagið er að fara þetta mikið fram úr áætlun þá er ekki von á góðu.

Þegar samantekin áætlun (A og B hluti) ársins 2014 var samþykkt þá var gert ráð fyrir 98.2 milljónum í hagnað – niðurstaðan er 6.5 milljónir, rúmlega 90 milljónum króna verri niðurstaða en áætlanir gerðu ráð fyrir á A og B hluta sveitarsjóðs – þetta getur ekki gengið með þessum hætti.

Guðmundur Ármann Pétursson.
Höfundur er sveitarstjórnarmaður.

Fyrri greinEingöngu konur á bæjarstjórnarfundi í júní
Næsta greinHrafnhildur Hanna besti sóknarmaðurinn