Ágæti lesandi. Á yfirstandandi kjörtímabili hefur margt gott áunnist í starfi bæjaryfirvalda í þágu íbúa sveitarfélagsins Árborgar.
Slíkt er fjarri því sjálfsagt mál eða einfalt. Að baki starfinu þarf að vera sterk liðsheild með öfluga einstaklinga í brúnni, sem hafa staðfasta framtíðarsýn og góða leiðarbók í farteskinu. Takmarkið er einfalt; gera gott sveitarfélag betra.
Ég álít mjög mikilvægt í slíku starfi að sátt megi skapast í samfélaginu okkar um megin viðfangsefnin og hef leitast eftir góðu samstarfi við hvort sem er félaga mína í meirihlutanum eða ágætu fulltrúa hinna flokkanna sem sitja með okkur í bæjarstjórninni og ýmsum nefndum. Í grunninn hefur starfið mótast af þeirri staðreynd að fjárhagsstaða sveitarfélagsins var erfið og réðist nýr meirihluti strax í að koma þeim málum í betri farveg.
Afleiðingar þess að búið var að steypa sveitarfélaginu í miklar skuldir, stækka kerfið og missa tökin á kostnaðarliðum, urðu þær að reksturinn varð þungur og lítið færi var á hefðbundnu viðhaldi eigna, hvað þá nýframkvæmdum. Fjórum árum síðar er staðan allt önnur og betri. Árangurinn felst í því að nú verður hægt að verja 900 milljónum króna til aðkallandi framkvæmda á þessu ári, um leið og áfram verður viðhaldið ráðdeild í fjármálunum.
Ég hef nú um nokkurt skeið, auk bæjarfulltrúastarfsins, fengið að leiða starf framkvæmda- og veitusviðs Árborgar og á samstarfsvettvangi sveitarfélaga verið formaður stjórnar Sorpstöðvar Suðurlands. Þetta hefur fallið ágætlega að áhugasviði mínu og þekkingu. Ég hef álitið mikilvægt að þeir sem sækjast eftir slíkum hlutverkum þurfi að hafa mikinn áhuga, þekkingu og samstarfsvilja.
Ég fékk hvatningu til að sækjast áfram eftir setu í bæjarstjórn og er það þakkarvert. Ég ákvað að bregðast við þeirri hvatningu með því að bjóða fram krafta mína á ný og sækjast eftir öðru sæti á lista okkar sjálfstæðismanna í komandi kosningum. Þinn stuðningur er mikilvægur á þeirri vegferð sem hófst fyrir fjórum árum. Næg verkefni eru framundan, og ég er reiðubúinn til verka.
Gunnar Egilsson, sækist eftir 2. sæti á lista D-listans í Árborg í prófkjöri sjálfstæðisfélaganna þann 22. mars nk.