Á kjörtímabilinu sem nú er senn á enda hefur töluvert verið lagt í gerð göngu- og hjólastíga í sveitarfélaginu.
Á meðal þeirra verkefna sem byrjað var að framkvæma var hið sögufræga kosningaloforð fyrrverandi sveitarstjórna um gerð stígs á milli bæjanna á Eyrunum. Til stendur að klára hann á þessu ári en aðalskipulagsbreytingu þurfti til vegna breytingu á legu hans sem tafði verkefnið og ekki var unnt að klára hann í einni beit.
Töluvert hefur verið um að malbikaðir hafi verið og kláraðir stígar sem höfðu verið ókláraðir í marga áratugi á Selfossi og vel gerður og vinsæll stígur meðfram Ölfusánni og víðar hafa verið lagðir. Vel heppnuð götumynd hefur fæðst á Eyrarbakka og til stendur að halda áfram með þá framkvæmd og hefst hún í byrjun sumars þar sem kláraður verður spottinn að miðbænum. Lagfæring gangstétta og göngustíga á Stokkseyri eru einnig á framkvæmdaáætlun þessa árs m.a. við Blómsturvelli.
Áfram skal haldið í stígagerð
Í fjárfestingaáætlun sem samþykkt var í lok síðasta árs var samþykkt að leggja tæplega 40 milljónir króna í göngu- og hjólreiðastíga á árinu 2014 auk þess sem að sveitarfélagið fær afhent á silfurfati undirlag fyrir stíg sem nær frá Selfossi meðfram fuglafriðlandinu og þaðan niður á Eyrarbakka.
Markmið okkar með áframhaldandi uppbyggingu göngu- og hjólastígakerfis í Árborg er að íbúum sé gert kleift að ferðast hjólandi eða gangandi á öruggan og aðlaðandi hátt um sveitarfélagið ásamt því að öðlast í leiðinni almennt hreysti. Hugmyndir eru einnig uppi um að koma upp áningarstöðum þar sem hægt verði að taka léttar æfingar og njóta útsýnis og friðsældar í leiðinni.
Gunnar Egilsson,
skipar 1. sæti á D-lista Sjálfstæðisflokksins í Árborg fyrir komandi sveitarstjórnarkosningar.