Að hafa áhuga á því samfélagi sem maður býr í er okkur flestum sameiginlegt. Margir hafa helst áhuga á sínu nærumhverfi nema þegar stórar og umfangsmiklar breytingar eiga sér stað. Íbúakosning ætti í slíkum tilfellum að teljast sjálfsagður hlutur.
Grunnatriði í lýðræði er gagnrýnin hugsun, frelsi til skoðana og tjáningar. Þar með talið frelsi til að setja krossinn þar sem maður kýs, án þess að óttast að manni hefnist fyrir það. Það er þess vegna virkilega ömurlegt að lesa orð oddvita sjálfstæðismanna í Suðurlandi, tímariti sjálfstæðismanna í Sveitarfélaginu Árborg, sem var dreift í hús í desember. Þar fjallar Gunnar Egilsson um framfarir á Selfossi og þá sérlega um byggingu nýs miðbæjar á vegum einkaaðila. Framkvæmdin var á sínum tíma umdeild fyrir margar og ólíkar sakir. Að endingu var haldin íbúakosning árið 2018. Gunnar segir: „Því skal hins vegar haldið til haga hverjir voru á móti þeirri uppbyggingu.“ Hvað forystumaður sjálfstæðimanna í Árborg meinar nákvæmlega með þessum orðum er mér ekki alveg ljóst. Helst skil ég það svo, að þeir sem opinberlega lýstu sig mótfallna miðbæ Sigtúns þróunarfélags ehf. muni á einhvern hátt gjalda þess í framtíðinni eða svo lengi sem sjálfstæðismenn hafa völd í bæjarstjórn. Við sem settum ekki krossinn þar sem Gunnar vildi í íbúakosningunni – munum við fá minna brautargengi í samfélaginu? Munum við ekki sitja við sama borð og aðrir íbúar sveitarfélagsins?
Slík orðræða ætti ekki að sjást í opinberum skrifum og ótrúlegt að aðrir sjálfstæðismenn samþykki þetta orðalag. Hver sem situr í bæjarstjórn situr þar sem fulltrúi síns flokks en alltaf í þjónusta allra íbúa sveitarfélagsins en ekki eingöngu í þjónustu skoðanabræðra sinna. Enginn stórframkvæmd er hafin yfir gagnrýni og margir sem kusu með miðbænum gerðu það þrátt fyrir að sjá ágalla á framkvæmdinni. Að sama skapi voru margir sem kusu á móti þrátt fyrir að sjá einhverja kosti við hana. Lýðræðislegur þroski felst m.a. í því að þótt maður berjist af hugsjón fyrir einhverju þá hlítir maður niðurstöðum sem eru manni ekki að skapi. Maður ætti ekki að grafa skotgrafir sem hafa áhrif á samvinnu í framtíðinni og allra síst ætti „sigurvegarinn“ að senda duldar hótanir út í samfélagið.
Gunnari var líka tíðrætt um íbúakosningu um miðbæinn og ég verð að minna sjálfstæðismenn á að íbúakosningarnar voru eingöngu haldnar vegna þess að íbúar kröfðust þess. Sjálfstæðismenn í bæjarstjórn vildu ekki halda kosningu um framkvæmdina. Áhugasamir íbúar þrömmuðu þess vegna í mörg hundruð hús til að safna undirskriftum í kapp við tímamörk. Sjálfstæðismenn ættu því kannski að sýna örlítið meiri auðmýkt, hætta að stæra sig af því að hafa blásið til íbúakosninga þarna um árið og þakka okkur sem þvinguðu fram kosningu. Gunnar veit hver við erum; hann heldur þessu til haga.
Linda Ásdísardóttir
íbúi á Eyrarbakka