Margir brosa líklega út í annað yfir þessari fyrirsögn, enda er orðræðan í samfélaginu yfirleitt á þann veg að stjórnmál og heiðarleiki fari ekki alltaf saman. Í aðdraganda kosninga birtast gjarnan greinar frá framboðum um það sem vel eða illa hefur gengið á kjörtímabilinu, stundum með villandi og jafnvel röngum upplýsingum. Eins eru í aðdraganda kosninga gjarnan gefin fögur fyrirheit og kosningaloforð fyrir næsta kjörtímabil. Því miður er algengt að kosningaloforð síðustu kosninga hafi reynst sæt fyrir augað en óraunsæ í framkvæmd.
Bæjarfulltrúar eru fulltrúar fólksins
Hagur íbúa sveitarfélagsins er hagur bæjarfulltrúa. Þeir sem kosnir eru til að vera pólitískir fulltrúar sveitarfélags eiga að vinna fyrir fólkið, það er frumskilyrðið og má aldrei gleymast. Íbúar sveitarfélagsins eiga rétt á því að þeim sé sagt rétt og satt frá og að mál séu kynnt eins og þau eru, hvort sem staðan er jákvæð eða neikvæð. Sannleikurinn er alltaf sagna bestur og mikilvægt er að horfa raunsætt á stöðuna og sjá hvar þarf að hlúa að og hvar sóknarfærin eru.
Skýr framtíðarsýn og raunsæ markmið
Í aðdraganda kosninga getur það verið freisting margra stjórnmálaflokka að lofa fögrum hlutum sem líta vel út og vekja eftirvæntingu hjá fólki. Við í D-listanum í Árborg erum með afar hófsöm loforð og fyrirheit fyrir komandi sveitarstjórnarkosningar. Fyrirheit okkar til framtíðar byggjast á núverandi stöðu og fjárhagslegri getu sveitarfélagsins og hafa það að markmiði að auka hagsæld sveitarfélagsins og tryggja velferð allra íbúa Árborgar. Eins er það okkar loforð að við í D-listanum munum leggja okkur fram um að hafa samskipti við íbúa og fyrirtæki opin og heiðarleg, hvort sem það varðar stöðu verkefna sveitarfélagsins eða það sem varðar starf D-listans í Árborg.
Árborg okkar allra – þar sem þú skiptir máli.
Bragi Bjarnason
Fjóla St. Kristinsdóttir
Kjartan Björnsson
Sveinn Ægir Birgisson
Brynhildur Jónsdóttir
Helga Lind Pálsdóttir
Þórhildur Dröfn Ingvadóttir