Það er stór ákvörðun fyrir einstaklinga að bjóða sig fram til starfa í stjórnmálum. Hvort sem það er framboð til alþingiskosninga eða til sveitarstjórnar, þá er viðkomandi að bjóða sig fram til starfa fyrir samfélagið. Um leið er hinn sami að opna ákveðnar dyr að lífi sínu umfram málefnalegar skoðanir á einstaka stefnu eða verkefni. Málefnaleg gagnrýni og umræður eru af hinu góða og leiða okkur oft að betri niðurstöðu en þegar ráðist er á heillindi manns og þau dregin í efa þá stendur mér ekki sama.
Að starfa í pólitík
Ég vil trúa því að þegar einstaklingur ákveður að fara fram í pólitík sé það gert á góðum forsendum. Ég get auðvitað bara talað fyrir sjálfan mig í þeim efnum að það sem rekur mig áfram til að vinna að bættu samfélagi og málefnum míns sveitarfélags felst eingöngu í því að reyna að láta gott af mér leiða. Ég er ekki hér til að þóknast einhverjum einum umfram aðra eða taka ákvarðanir byggðar á öðru en góðum og skynsamlegum rökum.
Því stakk það mig verulega þegar bæjarfulltrúi Samfylkingarinnar hér í Árborg, Sigurjón Vídalín Guðmundsson lét að því liggja í blaðagrein nýverið að undirritaður hefði tekið ákvarðanir byggðar á öðru en góðum hug eða til að þakka fyrir einhverskonar stuðning í kosningabaráttu. Slíkt gæti ekki verið lengra frá sannleikanum. Svo það komi skýrt fram á prenti þá hef ég aldrei verið beðinn um “greiða” eða tekið “ákvörðun” um eitthvað sem stenst ekki þá stjórnsýslu sem við vinnum eftir samkvæmt lögum. Ég vil ekki starfa þannig og mun aldrei gera það. Ég var kosinn af íbúum Sveitarfélagsins Árborgar og mun starfa með hagsmuni þeirra og sveitarfélagsins alls að leiðarljósi, ekki einstakra hagsmunaaðila.
Það er kannski um leið vert að nefna að umræddur Sigurjón, sem formaður skipulagsnefndar árin 2018-2022, samþykkti breytt deiliskipulag fyrir svokallaða “Árbakkaland” í mars 2022 með fjölgun íbúða upp í um 550 talsins. Núverandi skipulagsnefnd þurfti hins vegar að taka það aftur til afgreiðslu vegna athugasemda Skipulagsstofnunar og gerði það í janúar 2023. Skipulagið var þá afgreitt eftir breytingar með sama íbúðarmagni og gert hafði verið áður. Varðandi breytt skipulag fyrir miðbæ Selfoss þá var Sigurjóni ásamt öðrum bæjarfulltrúum boðið til kynningarfundar 12. september 2022 og drög að skipulaginu kynnt skipulagsnefnd mánuði síðar, 12. október. Allar þessar dagsetningar eru þekktar.
Þótt Sigurjón fullyrði sem svo og dragi það fram sem athyglisverðast í sínum pistli, þá stenst það enga skoðun að ekki hafi farið fram kynning fyrir bæjarstjórn eða skipulagsnefnd áður en framkvæmdaaðilar kynntu breytingarnar á stórum íbúafundi 13. október 2022. Sveitarfélagið hefur aldrei staðið í vegi fyrir framkvæmdaaðilum að kynna sín verkefni og myndi ég raunar hvetja til þess en ella þegar um ræðir jafn viðamikil verkefni og skipulag fyrir miðbæ. Gerð var íbúakönnun um skipulagið vorið 2023 þar sem um 1650 einstaklingar eða 20 prósent íbúa tók þátt og voru níu af hverjum tíu fylgjandi breytingunum. Sennilega hefur skipulag svæðis nær aldrei verið í jafn opnu ferli eða fengið jafnmikla aðkomu íbúa hvað varðar ákvarðanatöku.
Það er sorglegt að pólitíkin sé á þessum stað hjá viðkomandi bæjarfulltrúa. Ég átta mig á að að baki sé einhverskonar pólitískur leikur, nú þegar í ljós kemur að núverandi bæjarstjórn gengur vel að hreinsa til í fjárhag sveitarfélagsins eftir hans stjórnartíð. Svona skrif hafa stundum verið kölluð „smjörklípa“.
Kaupa sér kosningar!
Viðkomandi bæjarfulltrúi fer auk þess mikinn í orðum sínum um kosningabaráttuna og talar þar um fjármagn sem á að hafa verið notað til að “kaupa” kosningasigur. Ég ætla að vona að þetta hafi verið sett fram í einhverri fljótfærni enda ótrúlegt að slengja því fram að kjósendur í sveitarfélaginu taki ekki eigin ákvörðun í kjörklefanum út frá málefnum sem þá snertir eða persónum á lista sem þau kjósa umfram aðra. Einu peningarnir í spilunum eru skattpeningar, sem kjósendur vilja að farið sé með af ábyrgð. Það kom berlega fram þegar talið var upp úr kössunum enda lagði D-listinn mikið upp úr því í sinni kosningabaráttu að koma þyrfti fjármálum sveitarfélagsins í betra horf.
Kosningakerfið á Íslandi er að hluta til þannig að stjórnmálaflokkar afla sér styrkja, auglýsinga eða annarra framlaga til að standa straum af kosningabaráttu. Þar sitja allir við sama borð. Sjálfstæðisflokkurinn í Árborg hefur skilað öllum gögnum til skattsins líkt og lög gera ráð fyrir. Ég býst ekki við öðru en að önnur framboð hafi gert hið sama. Það er ekkert sérstakt leyndarmál að kosningabaráttan hafi kostað D-listann í Árborg í heildina um 6,1 milljón króna. Í kosningabaráttunni var safnað styrkja og auglýsinga frá einstaklingum og fyrirtækjum. Gefið var út blað sem var dreift inn á heimili, leigt húsnæði undir kosningaskrifstofu og haldinn fjöldi skemmtilegra viðburða og funda til að ná samtali við sem flesta íbúa. Það málefnalega samtal skilaði góðum úrslitum eða sex fulltrúum af ellefu.
Sterkt umboð
Sjálfstæðisflokkurinn var eini flokkurinn sem gaf íbúum kost á að velja einstaklinga á framboðslista sinn með prófkjöri sem er það næsta sem við komumst að íbúar geti haft bein áhrif á val á framboðslista. Í þessu ferli öllu er það dugnaður og elja fólksins sem kemur að ýmist eigin framboði eða listanna sem skilar árangri.
Það er ágætt hér að nota tækifærið til að hrósa öllum þeim sem komu að kosningabaráttu Sjálfstæðisflokksins í Árborg vorið 2022. Þetta var ánægjulegur tími og gefandi. Það er gaman að rifja þetta upp, öll samtölin sem maður átti við fólkið hér um slóðir um málefni sveitarfélagsins okkar sem við sjálfstæðismenn erum að stýra í örugga höfn eftir fráfarandi bæjarstjórn. Stýra í rétta átt til framtíðar. Það getur verið þungt á köflum og erfiðar ákvarðanir teknar en það er bjart framundan. Ég og aðrir bæjarfulltrúar D-listans munum hér eftir sem áður starfa með hagsmuni íbúa sveitarfélagsins að leiðarljósi.
Bragi Bjarnason,
formaður bæjarráðs og oddviti Sjálfstæðisflokksins í Árborg