Heilsuefling er mikilvæg til að auka lífsgæði en aukin tíðni ýmissa lífsstílstengdra sjúkdóma hefur í för með sér ákveðnar áskoranir. Til að sporna við þeirri þróun skiptir máli að leggja áherslu á markvisst heilsueflingar- og forvarnarstarf fyrir alla aldurshópa.
Í stefnu heilbrigðisráðuneytisins sem starfshópur þess skilaði af sér í janúar 2021 kemur meðal annars fram að meginmarkmið til ársins 2030 sé að öll sveitarfélög á landinu hafi markað sér stefnu er varðar heilsueflingu fyrir aldraða og að út frá henni verði gerð aðgerðaáætlun með reglulegu stöðumati, eftirfylgni og árangursmælingum.
Reykjanesbær hefur frá árinu 2017 gert einmitt þetta með því að styðja við verkefni sem stuðlar að bættri heilsu 65 ára og eldri. Verkefnið er skipulagt af dr. Janusi Guðlaugssyni, íþrótta- og heilsufræðingi í samstarfi við Heilbrigðisstofnun Suðurnesja og er hver hópur í tveggja ára skipulagðri heilsueflingu. Lagt er upp með markvissa þol- og styrktarþjálfun, reglulegar heilsufarsmælingar, fræðslu og ráðgjöf um holla næringu og aðra heilsueflandi þætti. Þátttakendur geta fylgst með framgöngu og breytingum á heilsu sinni jafnt og þétt. Markmið með þátttöku í námskeiðinu er að gera einstaklinginn hæfari til að spyrna fótum gegn öldrunareinkennum og takast betur á við heilsutengdar breytingar sem fylgja hækkandi aldri. Námskeiðin hafa skilað einstökum árangri hér í Reykjanesbæ og eru sífellt fleiri sveitarfélög að bætast í hóp þátttakenda.
Samkvæmt rannsóknum sem gerðar voru á fyrstu þátttakendum í Reykjanesbæ árið 2017 í upphafi námskeiðs í maí og síðan í nóvember sama ár voru umtalsverðar breytingar á ýmsum heilsufarsbreytum sem kannaðar voru. Sú mæling sem vakti hvað mestan áhuga sneri að efnaskiptavillu eða áhættuþáttum hjarta og æðasjúkdóma. Starfsfólk á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja sá um blóðmælingar og við greiningu á efnaskiptavillu kom í ljós að í fyrsta hópnum voru 34 einstaklingar í aukinni áhættu við upphaf mælingar en eftir 6 mánuði kom í ljós að 14 einstaklingar voru komnir úr þessari áhættu. Um 41% bætingu var að ræða á milli mælinga og flestir aðrir náðu að færa sín gildi til betri vegar. Mælingar sýndu einnig jákvæð áhrif félagslega og andlega. Þessar jákvæðu breytingar hafa einnig komið fram hjá þeim hópum sem á eftir hafa komið.
Það virðist því nokkuð ljóst að verkefni eins og það sem rætt hefur verið um hér er hægt að skilgreina sem snemmtæka íhlutun og að það hljóti að vera verulegur heilsufars-, félags- og fjárhagslegur ávinningur af því að tryggja að slíkt námskeið standi til boða fyrir allt eldra fólk óháð búsetu. Skipulag námskeiðsins, eftirfylgni með þátttakendum og árangursmælingar eru í samræmi við tillögur starfshóps heilbrigðisráðuneytisins og ætti því að vera hægt að kostnaðarmeta slíkt verkefni og tryggja að markmið stefnu ráðuneytisins nái fram að ganga.
Halldóra Fríða Þorvaldsdóttir,
frambjóðandi í 3.-4.sæti í prófkjöri Framsóknarflokksins í Suðurkjördæmi, varabæjarfulltrúi Framsóknarflokksins í Reykjanesbæ og formaður velferðarráðs Reykjanesbæjar