Ég ólst upp á Eyrarbakka og lauk þar grunnskóla. Eftir að barnaskólagöngu lauk lá leið mín í Fjölbrautaskóla Suðurlands á Selfossi þar sem ég lauk stúdentsprófi.
Eftir að ég lauk stúdentsprófi varð ég svo heppin að fá vinnu í leikskólanum Árbæ á Selfossi þar sem ég vann í eitt ár og dugði þetta eina ár til þess að ég vissi að ég vildi mennta mig sem leikskólakennari. Flutti ég því til Reykjavíkur haustið 2008 til að stunda háskólanám og útskrifaðist ég sem leikskólakennari vorið 2011.
Strax að námi loknu flutti ég á Selfoss þar sem ég bý enn í dag og starfa sem deildarstjóri í leikskólanum Árbæ. Ég þekki því umhverfi sveitarfélagsins vel bæði sem íbúi á Eyrarbakka og Selfossi þar sem ég hef ávallt búið hér, ef frá er talin þriggja ára háskólanám.
Oft verður maður þess var í orðræðunni að hér sé fínt að búa, enda stutt að leita til Reykjavíkur. Rétt er það, að þangað er stutt að fara en viljum við ávallt leita þangað? Í Árborg höfum við fimm frábæra leikskóla, þrjá flotta grunnskóla, fjölbrautaskóla, hjúkrunar og dvalarheimili fyrir aldraða, sjúkrahús, verslanir, matsölustaði, kvikmyndahús og svo mætti lengi telja. Mikið framboð er af íþrótta- og tómstundastarfi fyrir börn og unglinga og er starfrækt metnaðarfullt leikfélag sem setur upp sýningu á hverju ári sem er hverri annarri betri. Fjölheimar hafa verið starfræktir í eitt ár undir því nafni en þar fer til dæmis fram fjarkennsla á háskólastigi.
Það má því segja að það sé fátt sem okkur skortir hér í Árborg en þar með er ekki sagt að gott megi ekki gera enn betur.
Mig langar að leggja mitt að mörkum til þess að Árborg verði sá staður sem fólkið okkar leitar aftur til að loknu námi hafi það þurft að flytja búferlum til að stunda nám sitt. Þá langar mig að sveitarfélagið verði eftirsóknarvert til búsetu fyrir fjölskyldufólk og með þeim hætti tryggjum við vöxt Árborgar til framtíðar.
Helga Þórey Rúnarsdóttir, býður sig fram í 5. sæti í prófkjöri Sjálfstæðismanna í Árborg 22. mars næstkomandi.