Á Laugarvatni er frábært skólasamfélag þar sem hægt er að hafa búsetu og stunda nám á öllum skólastigum.
Leik- og grunnskóli svæðisins er rekinn í sameiginlegri einingu þar sem nemendur frá fyrsta aldursári geta stundað nám. Eftir grunnskólann tekur við Menntaskólinn að Laugarvatni þar sem rík áhersla er lögð á bekkjakerfið og mynda margir nemendur órjúfanleg tengsl eftir dvöl sína á vist skólans þar sem allir takast á við þá áskorun að búa saman í sátt og samlyndi. Íþróttafræðasetur Háskóla Íslands er einnig mikilvægur hlekkur í samfélaginu þar sem nemendur alls staðar af landinu koma til þess eins að stunda nám í íþróttafræðum á háskólastigi og efla heilsuvitund með aukinni þekkingu og visku.
Það fylgja því ákveðnir kostir að búa í svo litlu samfélagi og opnar það margar dyr hvað varðar samvinnu á milli skólana þriggja. Í Háskólann koma nemendur og þeim fylgja oft fjölskyldur sem þarf að hýsa og mennta og jafnvel skapast tækifæri til atvinnu á meðan á dvölinni stendur. Gallinn er þó sá að búseta þessara einstaklinga er tiltölulega stutt og flæði fólks til og frá staðnum mikið.
Samvinna milli Menntaskólans og Háskólans er þekkt og hafa nemendur frá Íþróttafræðasetri tekið verklega hluta námsins við Menntaskólann undir handleiðslu íþróttakennara skólans. Námið og aðferðir eru endurskoðaðar á ári hverju og nú hafa Janus Guðlaugsson doktor frá Háskóla Íslands og kennari við Íþróttafræðasetur í samvinnu við Halldór Pál Halldórsson skólameistara og Helgu Kristínu Sæbjörnsdóttur íþróttakennara hafið samvinnuverkefni sem tengir nám íþróttafræðinga- og kennara beint við vettvang. Nemendur í íþróttafræðum, á námskeiðinu „Kennslufræði íþrótta í framhaldsskóla“ fá þá tækifæri til þess að kenna íþróttir og tengja námið beint við raunveruleikann í formi verklegrar kennslu ásamt því að vinna verkefni sem byggja á uppbyggingu íþrótta á framhaldsskólastigi.
Þetta samstarf gefur nemendum tækifæri til þess að kynnast starfi íþróttakennarans á alveg nýjum grundvelli sem gefur betri sýn á starfið í heild sinni, eykur þekkingu þeirra á aðalnámskrá framhaldsskóla og á því sem þarf til þess að efla og virkja nemendur í gegnum heilsurækt. Samstarfið mun að þessu sinni standa í 9 vikur og koma nemendur Íþróttafræðaseturs til með að kenna nemendum Menntaskólans íþróttir á meðan á tímabilinu stendur. Hugmyndavinna á bakvið hvern tímaseðil byggir á þeim áherslum sem liggja fyrir hvern bekk og þá þætti sem þarf að uppfylla til þess að nemendur menntaskólans fái sem mest út úr sínum íþróttum í samræmi við aðalnámskrá framhaldsskóla.
Nú eru framundan miklar og spennandi breytingar á framhaldsskólakerfinu. Við megum ekki gleyma því að við þurfum að læra að hreyfa okkur, við þurfum að læra að hugsa vel um heilsuna og að láta ekki þekkingu á heilsuvitund víkja fyrir lestri bóka þótt hvort tveggja sé mikilvægt. Rannsóknir hafa sýnt að hreyfing ýtir undir betri námsárangur og mikilvægt að stunda hreyfingu meðfram bóknámi.
Eftir framhaldsskólann þurfa nemendur að standa á eigin fótum þegar kemur að heilsurækt og því er mikilvægt að leggja grunn að góðum venjum og þekkingu á því hvernig best er að rækta líkama og sál. Framhaldsskólarnir eru frábær vettvangur til þess að kynna fyrir ungu fólki alla þá flóru sem snýr að heilbrigði og þess vegna mikilvægt að að móta námið á þann hátt að allir hafa gagn af.
Helga Kristín Sæbjörnsdóttir, íþrótta- og heilsufræðingur.