Ágæti kjósandi í Árborg. Nú er komið að því að við kjósum fólkið sem við viljum að stjórni sveitarfélaginu okkar næstu fjögur árin.
Við sem skipum lista Framsóknar í sveitarfélaginu, höfum undanfarnar vikur kynnt stefnumál okkar fyrir ykkur og fyrir hvað við stöndum í þessum kosningum. Þar kemur fram okkar framtíðarsýn, ekki byggð á óraunhæfum loforðum og fullyrðingum sem ekki verður hægt að standa við. Heldur sýn á hluti sem hægt er að framkvæma á komandi kjörtímabili. Með ykkur stuðningi munum við hrinda þessu í framkvæmd.
Við höfum hitt mikið af fólki á undanförnum vikum um allt sveitarfélagið frá fjöru til fjalls. Það sem er sláandi er að heyra af málum sem enn hafa ekki verið framkvæmd, litlum og einföldum hlutum sem margoft er búið að benda á að þurfi að laga en ekkert gerist. Einfaldir hlutir sem týnst hafa í bæjarkerfinu, þessu kerfi sem átti að einfalda og stytta boðleiðir í, fyrir fjórum árum síðan, af núverandi meirihluta. Hlutir sem kosta lítið og hægt er að framkvæma á stuttum tíma með litlum tilkostnaði. Samtalið við íbúana hefur ekki átt sér stað og erfitt að skilja boðleiðir bæjarkerfisins.
Á lista Framsóknar í Árborg er stór hópur af fólki, þverskurður af samfélaginu, bæði í aldri, kyni, búsetu og atvinnu. Fólk sem hefur mikla trú á sveitarfélaginu sínu og íbúum þess og vill gera samfélagið enn betra en það er.
Við viljum… efla innanbæjarstrætó, hækka tómstundastyrki, ráða atvinnu- og ferðamálafulltrúa, efla skólakerfið fyrir þá sem erfitt eiga með nám, styðja við ör- og sprotafyrirtæki, bæta félagsaðstöðu eldri borgara, fjölga dvalar- og hjúkrunarrýmum, auka sjálfbærni og ráðdeild í rekstri og forgangsraða verkefnum. Þetta er bara brot af okkar framtíðarsýn.
Við biðjum um stuðning þinn í komandi kosningum og heitum því að vinna fyrir sveitarfélagið okkar og íbúa þess öllum til framfara og heilla.
Helgi Sigurður Haraldsson, oddviti Framsóknar í Svf. Árborg.