Það er ljóst að framlagning ársreiknings sveitarfélagsins Árborgar fyrir árið 2014, sýnir grafalvarlega stöðu í fjármálum sveitarfélagsins.
Enn og aftur er A-hlutinn, bæjarsjóður, rekinn með tapi eða sem nemur 194 milljónum eftir afskriftir og fjármagnsliði. Bæjarsjóður hefur þá verið rekinn með tapi í samfellt sjö ár, eða frá því árið 2008. Er svo komið að Eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga (EFS) hefur sent sveitarfélaginu bréf þar sem nefndin lýsur yfir verulegum áhyggjum af rekstri A-hluta þess og áætlunum til ársins 2018, um áframhaldandi taprekstur A-hlutans.
Í bréfi nefndarinnar kemur m.a fram að „vegna rekstrar A-hluta sveitarfélagsins og áætlana um áframhaldandi neikvæða rekstrarniðurstöðu hans, óskar EFS eftir upplýsingum frá bæjarstjórn um stefnumótun hennar í rekstri A-hluta, mikilvægi þess að bæta neikvæðan rekstur A-hluta þannig að hann skili jákvæðri rekstrarniðurstöðu, hugsanlegar aðgerðir bæjarstjórnar sem væru þess valdandi að ná markmiðum um jákvæða rekstrarniðurstöðu og aðrar upplýsingar sem bæjarstjórn vill koma á framfæri í tengslum við fyrirspurn þessa“. Svar skal berast nefndinni fyrir 18. maí nk. Í stuttu máli, rekstur A-hlutans verður að bæta og það verður eingöngu gert með auknum tekjum eða niðurskurði í rekstrarkostnaði hans.
Rekstur A og B hluta skilar afgangi uppá 102 milljónir eftir afskriftir og fjármagnsliði og hefur skilað afgangi sl. fimm ár. Inní það uppgjör eru komin B-hluta fyrirtæki sveitarfélagsins s.s vatnsveita, fráveita og hitaveita, sem hafa skilað afgangi öll þessi ár vegna minni framkvæmda og haldið þannig uppi heildarrekstri sveitarfélagsins réttum megin við núllið. En eins og oft hefur komið fram áður eiga þessi fyrirtæki ekki að standa undir beinum rekstri sveitarfélagsins í A-hluta, heldur halda uppi þjónustustigi og afhendingaröryggi í sínum þjónustuflokki, með fjárfestingum og viðhaldi. En það vekur athygli að allt frá árinu 2010 hefur skuld aðalsjóðs (A-hluta) við eigin fyrirtæki í B-hluti, aukist verulega eða frá því að vera árið 2009, 432 milljónir í að vera í árslok 2014, 840 milljónir, tæplega tvöfaldast.
Þrátt fyrir allt tal um að heildarskuldir sveitarfélagsins, að frádregnum peningalegum eignum, hafi lækkað á undanförnum árum er ljóst að svo er ekki og þær hafa bara hækkað. Er svo komið að í áætlun um rekstur sveitarfélagsins er gert ráð fyrir að þessar sömu skuldir verði árið 2018 komnar í tæpa 10 milljarða, úr því að vera rúmir 6 milljarðar árið 2010.
Það er ljóst að allar þær ábendingar, bókanir og umræða sem undirritaður hefur tekið þátt í á undanförnum árum til að benda á þær staðreyndir að rekstur sveitarfélagsins þurfi að laga, hafa allar átt rétt á sér og verið réttar, þrátt fyrir meirihluti bæjarstjórnar og einstaka bæjarfulltrúar hafi reynt, á undanförnum árum að snúa út úr og gera lítið úr þeim. Nú síðast staðfestir bréf EFS, þennan málflutning undirritaðs.
Því skora ég nú á meirihluta bæjarstjórnar að sýna ábyrgð og hefja nú þegar vinnu allra bæjarfulltrúa til að snúa rekstri sveitarfélagsins okkar til betri vegar, því það verður ekki beðið með það lengur ef ekki á illa að fara.
Helgi Sigurður Haraldsson, bæjarfulltrúi B-lista.
(Bókun lögð fram við afgreiðslu ársreiknings 2014)