Mikið hefur verið gert í uppbyggingu íþróttamannvirkja og til að bæta aðstöðu til íþróttaiðkunar á undanförnum árum á Selfossi.
Á allra síðustu árum hefur það einkum verið á íþróttasvæðinu við Engjaveg. Þar er nú komið svæði til iðkunar knattspyrnu og frjálsíþrótta eins og það gerist best, utandyra, á landinu í dag.
Fjöldi þeirra sem stunda skipulagt íþróttastarf í Sveitarfélaginu Árborg hefur vaxið gríðarlega á undanförnum árum og heldur bara áfram að vaxa á næstu árum. Því er nú svo komið í sumum íþróttagreinum að ekki er hægt að taka við öllum sem áhuga hafa á að stunda viðkomandi greinar, eingöngu vegna þess að aðstaðan býður ekki uppá það. Þess vegna má ekki slá slöku við að halda áfram þeirri uppbyggingu mannvirkja sem hafin er.
Ég tel að það sé fernt sem sé brýnast að byrja undirbúning að hjá Sveitarfélaginu Árborg. Það eru breytingar á íþróttahúsinu við Vallaskóla og jafnvel stækkun þess, viðbygging við Baulu, íþróttahús Sunnulækjarskóla, bygging fjölnota húss á íþróttavallarsvæðinu við Engjaveg og skoðun á innanhúss íþróttaaðstöðu á Stokkseyri og Eyrarbakka.
Þetta eru stór verkefni og þau verða ekki öll framkvæmd í einu. Því er nauðsynlegt að hefja áætlanagerð og forgangsröðun þessara verkefna sem fyrst og framkvæmdaáætlun til næstu ára sem hægt er að standa við.
Allir sem koma að þessum málum vilja að sjálfsögðu að byrjað verði á því sem kemur þeim best, en það er vitað mál að ekki verður þetta allt gert í einu. Þess vegna er nauðsynlegt að þær áætlanir sem gerðar verða, verði staðið við og hægt sé að treysta því að hálfu þeirra sem að þessum málum koma.
Að sjálfsögðu er margt annað sem þarf að huga að, s.s aðstöðu hestamanna, golfara, mótorsports ,ofl. en þetta tel ég vera samt stærstu málin. Því er nauðsynlegt að bæjaryfirvöld, notendur og aðrir sem að málum koma hefji vinnu við þarfagreiningu og skoðun þessara mála sem fyrst svo hægt sé að fara í áætlanagerð um kostnað og fleira sem þarf til að láta þetta verða að veruleika á næstu árum.
Helgi Sigurður Haraldsson, bæjarfulltrúi B-lista í Svf. Árborg.