Hver er framtíðarstefna Sveitarfélagsins Árborgar í málaflokkum þess og íbúanna?
Þessarar spurningar hef ég spurt mig að undanförnu þar sem mér finnst vanta mikið uppá að núverandi meirihluti bæjarstjórnar sé markvisst að vinna að svörum við þessari spurningu. Öll vitum við að fjárhagsstaða sveitarfélagsins er ekki góð og áætlaðar framkvæmdir á þessu ári í sögulegu lágmarki. En á meðan svo er þýðir bara ekki að bíða eftir að fjármagnið komi og hagurinn vænkist, heldur verður að vinna á meðan vel í því að marka stefnuna og í hvað fjármagnið á að fara þegar það verður fyrir hendi.
Skólahúsnæði
Til að útskýra þetta vil ég benda sérstaklega á tvö dæmi málin mínu til stuðnings. Á síðasta ári flutti ég tillögu í bæjarráði um að stofnuð yrði nefnd til að skoða framtíðaruppbyggingu skólamannvirkja, leik- og grunnskóla. Nefndin átti að skoða stöðuna í dag, aldurssamsetningu í sveitarfélaginu, mannfjölgunarspár ofl. Í framhaldi af því legði hún fram áætlun um þörf á húsnæði, uppbyggingu þess, staðsetningu ofl.
Á sama fundi lagði meirihluti D-lista fram, nánast samhljóða tillögu og varð úr að nefndin var stofnuð. Nefndin var síðan ekki kölluð saman fyrr en mörgum mánuðum seinna og í millitíðinni tók meirihlutinn ákvörðun um að hefja viðbyggingu við Sunnulækjarskóla, vegna brýnnar þarfar að sagt var. Framkvæmd sem verður þegar upp er staðið, uppá yfir 400 milljónir. Þetta er dæmi um það að byrja á röngum enda og vinna ekki eftir góðum áætlunum byggðum á góðum undirbúningi og faglegum vinnubrögðum.
Skipulagsmál
Hitt dæmið eru skipulagsmál í sveitarfélaginu. Í byrjun þessa árs benti ég á það hvort ekki ætti að hefja vinnu við deiliskipulag á svæðinu þar sem keyrt er inn í bæinn að vestanverðu, við Biskupstungnabraut og svæðinu þar í kring. Einnig svæðið við innkeyrsluna í bæinn að austanverðu, við Gaulverjabæjarveg og á nýkeyptu landi úr Laugardælalandi. Meirihlutinn taldi í fyrstu ekki ástæðu til þessarar vinnu þar sem ekkert fjármagn væri til staðar til að fara í framkvæmdir á þessum svæðum.
Eins og skipulagsmál eru í dag tekur auglýsinga- og athugasemdaferli marga mánuði og því eins gott að vera tímanlega með svoleiðis vinnu. Með því að gera ekkert í þessum málum núna verður sveitarfélagið ekki tilbúið að taka á móti þeim aðilum sem á þessum svæðum hafa áhuga á að byggja upp þjónustu og þeir munu fara annað. Af hverju ekki að nota tímann og fara í þessa vinnu þegar framkvæmdir eru í lágmarki og vera tilbúinn með svæðið þegar einhver sýnir því áhuga? Að lokum var samþykkt að fara í að vinna hugmyndir að deiliskipulagi á þessum svæðum og móta hugmyndir til framtíðar.
Notum tímann, vinnum faglega og hugsum til framtíðar, mótum stefnuna og framfylgjum henni þegar kemur að því að betur árar.
Helgi Sigurður Haraldsson bæjarfulltrúi í Svf. Árborg.