Helgi S. Haralds: Vertu með, hjálpaðu til

Eftir rúmar tvær vikur, um verslunarmannahelgina, verður stærsti íþróttaviðburður sem haldinn hefur verið á Selfossi, Unglingalandsmót UMFÍ.

Öllu hefur verið tjaldað til við undirbúning mótsins, bæði að hálfu framkvæmdaaðila, Héraðssambandsins Skarphéðins og Sveitarfélagsins Árborgar. Áætlað er að um 500 sjálfboðaliða þurfi til að framkvæma mótið og þar er um hin ýmsu störf að ræða.

Aðildarfélög HSK á Selfossi munu sjá um veitingasölu á mótinu, en gert er ráð fyrir að 12-15 þúsund manns muni sækja mótið. Því er eftir töluverðu að slægjast hjá þessum félögum, Ungmennafélagi Selfoss, Knattspyrnufélagi Árborgar, Íþróttafélaginu Suðra, Körfuknattleiksfélagi FSu, Golfklúbbi Selfoss og Hestamannafélaginu Sleipni. Mun hagnaður af veitingasölunni skiptast á milli þessara félaga eftir vinnuframlagi frá hverju og einu félagi. Félögin hafa nú þegar hafið leit að sjálfboðaliðum innan sinna raða til að manna þessar vaktir, og önnur störf,um verslunarmannahelgina og gengur vonandi vel.

En örugglega er einhver út í samfélaginu sem hefur ekki verið haft samband við og hefur áhuga að koma að því að styðja sitt félag eða hvaða félag sem hann velur sér að starfa fyrir og hvet ég viðkomandi til að hafa samband við sitt félag og bjóða fram aðstoð við mótið. Allt vinnuframlag skiptir máli alveg niður í nokkrar klukkustundir, eina vakt eða hvað annað sem viðkomandi hefur að bjóða. Ef einhver er í vafi hvert skal leita til að veita aðstoð má hafa samband við undirritaðan .

Að lokum hvet ég alla til að taka virkan þátt í að Unglingalandsmót UMFÍ á Selfossi, um verslunarmannahelgina, takist vel og verði okkur öllum til sóma og góð kynning á frábærri íþróttaaðstöðu á Selfossi og góðu sveitarfélagi heim að sækja.

Helgi Sigurður Haraldsson, formaður frjálsíþróttadeildar Umf. Selfoss.

Fyrri greinParketið komið á gólfið í Vallaskóla
Næsta greinSkilti afhjúpað á Múlatorgi