Hermann Ólafsson: Samgöngur og ferðaþjónusta

Á aðeins örfáum árum hefur þjónusta við erlenda ferðamenn orðin að helsta atvinnugrein ísensku þjóðarinnar og óhætt er að segja að greinin hafa dregið samfélagið upp úr þeim öldudal sem það lenti í við Hrunið.

Eðlilega hefur þessi öra þróun greinarinnar haft ýmsa vaxtarverki og brýn þörf er orðin á að málaflokknum sé gefinn mun meiri gaumur en hingað til. Á meðan að sjávarútvegur, landbúnaður og iðnaður hafa haft sín eigin stjórnskipuleg ráðuneyti hefur þjónusta við ferðamenn, sem og reyndar önnur þjónusta í landinu, ekki haft fastan samastað í stjórnsýslunni. En þetta er sem betur fer smátt og smátt að breytast og með tilkomu Atvinnuvegaráðuneytis má ætla að atvinnugreinin fái verðugri sess en ella.

Lífæð ferðaþjónustu
Segja má að lífæð ferðaþjónustunnar séu samgöngur. Ferðamenn koma til landsins í flugvélum og ferjum, og þjónustan við þá felst að miklu leyti í ferðum þeirra um vegakerfi landsins. E.t.v. er ákveðið vandamál að ferðaþjónustan og samgöngur eru vistuð í sitthvoru ráðuneytinu, og þó þarf ekki svo að vera. Allavega, þá er ljóst að stórátak þarf að gera í samgöngukerfum landsins ef okkur á að lukkast að festa þessa miklu atvinnugrein í sessi.

Stundum er talað um ágang ferðafólks sem vandamál, að vegakerfi og áfangastaðir þoli illa þetta stóraukna álag. Þessum hugsunarhætti þarf að snúa við og líta frekar á fjölgun ferðalanga sem tækifæri til að bæta okkar eigin samgöngur og aðgengi að náttúruperlum!

Tækifærin
Alla tíð hefur það háð okkur hversu fá við erum á þessu stóra landi og hversu dýrt og erfitt hefur verið að halda uppi sómasamlegum samgöngum til og frá landinu og landshorna á milli. Við aukið framboð flugferða til landsins höfum við sjálf óneitanlega notið góðs af lækkandi flugfargjöldum til og frá landinu. Á sama hátt ættum við sjálf að geta notið góðs af stórbættum samgöngum og aðstöðu á ferðamannastöðum með auknu flæði ferðamanna. Sú hefur því miður ekki orðið raunin ennþá. Allt of miklu púðri hefur verið eytt í nagg um alskonar aukaatriði málsins. Á sama tíma hefur t.d. olíugjald skilað verulegri tekjuaukningu til ríkissjóðs með stóraukinni umferð ferðamanna. Sú aukning ætti að sjálfsögðu að skila sér beint til uppbyggingar og viðhalds samgöngumannvirkja. Þá ætti hefðbundinn og venjulegur virðisaukastkattur á alla þætti ferðaþjónustu að skila þeirri tekjuaukningu sem kalla átti eftir með sölu á Náttúrupassa. Vandamálið virðist því ekki vera fjármögnun heldur fyrst og fremst stjórnskipulag, þ.e. hver skuli undirbúa, framkvæma og viðhalda mannvirkum þessu tengdu.

Byggjum á því sem til er
Oft gleymist það sem hendi er næst. Að mínu mati væri einfaldast, ódýrast og árangusríkast að fela Vegagerð ríkisins uppbyggingu og þjónustu á ferðamannastöðum. Stofnunin býr yfir áratuga reynslu og þekkingu á verklagsferlum við hönnun og framkvæmdir, samskiptum og samningum við landeigendur, hefur stjórnstöðvar um allt land ásamt mannafla og tækjakost til að þjónusta vegakerfið, sem augljóslega mætti samnýta til viðhalds og uppbyggingar á ferðamannastöðum.

Með útvíkkuðu þjónustuhlutverki þyrfti Vegagerðin augljóslega að tileinka sér ný vinnubrögð sem fælust í að greiða fólki leið til þeirra staða sem eftirspurn væri eftir. Þannig þyrfti að byggja upp vegakerfi sem bæði þolir og gerir ráð fyrir umferð stærri fólksflutningabíla sem og hjólreiðafólks. Byggja þarf upp vandaða áningastaði við áhugaverða staði með þeirri aðstöðu sem aðstæður krefja og fjölga þarf verulega minni úrskotum meðfram þjóðvegum.

Fóðrum mjólkurkúna
Því miður eru verkefnin nú þegar orðin mörg, brýn og aðkallandi. Fyrir utan uppbyggingu á vegum og aðstöðu við ferðamannastaði þarf að breikka helstu þjóðvegi og merkja fyrir hjólandi umferð. Það myndi auka öryggi til muna en um leið draga úr skemmdum af völdum þungra ökutækja. Einbreiðum brúm þarf að sjálfsögðu að útrýma þannig að tvíbreiðar brýr væru órjúfanlegur hluti tvöfalds bundins slitlags vega.

Ferðaþjónustan getur verið okkar helsta mjólkurkú framtíðarinnar. Sveltum hana því ekki, breytum „vandamálum“ í tækifæri og hefjumst handa við að nýta þau!

Höfundur er landslagsarkitekt hjá Landhönnun slf á Selfossi

Fyrri greinValorie hætt með Selfossliðið
Næsta greinFerðamaðurinn úrskurðaður í farbann