Hugmyndafræði hringrásarhagkerfis skoðuð í Hveragerði

Breytingastjórarnir Bryndís Eir Þorsteinsdóttir, Anton Tómasson, Kolbrún Vilhjálmsdóttir og Sigríður Kristjánsdóttir ásamt Elísabetu Björneyju Lárusdóttur. Ljósmynd/Ingunn Jónsdóttir

Samtök sunnlenskra sveitarfélaga og Hveragerðisbær vinna saman að tvíþættu verkefni sem gengur út að máta hugmyndafræði hringrásarhagkerfis (e. zero waste) við sunnlensk sveitarfélög.

Hveragerðisbær samþykkti að vera „tilraunasamfélag“ í þessu verkefni en ætlunin er að nýta aðferðir samsköpunar (e. co-creation) við að innleiða hugmyndafræðina. Sú vinna er partur af Erasmus verkefninu Crethink sem SASS er þátttakandi í.

Út á hvað gengur þetta verkefni „Crethink“?
Segja má að verkefnið sé í tveimur hlutum; annarsvegar erum við sameiginlega að vinna að því að kenna og þjálfa þátttakendur í því að vinna út frá svokallaðri „samsköpun“ þar sem áherslan er á að lausnir við áskorunum séu bestar þegar þær eru unnar í samvinnu við alla sem áskorunin snertir í stað þess að hún komi sem skipun frá t.d. ráðamönnum sem allir eigi svo að fara eftir. En verkefnið tekur þetta svo í raun skrefi lengra með því að „prufa“ þessar tillögur að lausnum í svokölluðum „lifandi rannsóknarstofum“ þar sem tillögurnar eru teknar og þær prufaðar og árangur þeirra svo metinn. Hvert land er svo með sitt raundæmi til þess að finna lausnir við og hér hjá okkur gengur verkefnið út á reyna að finna leið til þess að innleiða hringrásarhagkerfi inn í sveitarfélög og fengum við Hveragerði til liðs við okkur sem tilraunabæ. Og til þess að íbúar upplifi eignarhald á þessu verkefni er íslenska hlutanum stýrt af fjórum svokölluðum „breytingarstjórum“ sem eru allir búsettir í sveitarfélaginu en eru fulltrúar ólíkra hópa innan þess, svo sem fulltrúi bæjarstjórnar, fulltrúi fyrirtækja, fulltrúi félagasamtaka og fulltrúi íbúa. Þeirra verkefni er að fá íbúa og fyrirtæki til þess að taka þátt, koma með tillögur að lausnum og finna leiðir til þess að prufa þær í framhaldi.

Hópurinn úr Hveragerði samanstendur af ótrúlega kraftmiklu fólki sem hefur það sameiginlegt að vilja vinna að betra umhverfi og hafa áhrif á loftslagsaðgerðir innan samfélagsins. Það var ákveðið að vinna með úrgangsmál og eftir að hafa sýnt þeim hvernig úrgangsmálum er háttað í Hveragerði tóku þau ákvörðun um að leggja áherslu á að vinna með heimilsúrgang, þar sem hann er dýrasti málaflokkurinn og hefur mjög neikvæð áhrif á loftslagsmál. Í almenna heimilisúrganginum er oft allt of mikið af lífrænum úrgangi sem veldur metangasmengun þegar hann er grafinn ofan í jörðu og hefur ýmiss önnur neikvæð umhverfisáhrif.

 

Ljósmynd/Ingunn Jónsdóttir

Hvað gengur þetta „zero waste“/hringrásarhagkerfi út á?
Hringrásarhagkerfi snýst í grunninn um að skoða hvernig neyslan okkar er og reyna að hegða okkur meira eins og náttúran gerir. Náttúran sóar engu, allt er nýtt. Þegar lífvera deyr þá breytist hún í fæði fyrir aðrar lífverur og viðheldur þannig hringrás lífsins. Þegar þessi hugsun er færð í samhengi við neyslu okkar mannanna þá þarf að passa að engin skaðleg efni séu í vörunum sem við erum að neyta eða að við mokum ekki öllum hráefnunum okkar á einn stað. Þannig er t.d. plast mjög erfitt efni í hringrásarhagkerfinu, þar sem það krefst mikillar orku til að vinna plast úr olíu, og svo er það kannski notað sem einnota umbúðir sem endar hugsanlega í urðun eftir mjög stutta notkun. Þannig hefur mikil orka tapast fyrir eitthvað sem skilar mjög litlu af sér. Einnota plast er dæmigert fyrir vörur í línulegu hagkerfi, þar sem við framleiðum, kaupum og hendum. Betra væri að umbúðirnar væru úr einhverskonar náttúrulegu efni sem ætti sér annan farveg en urðun, og þannig yrði efninu haldið innan hringrásarinnar lengur. Með þeim hætti myndum við betur ná að hegða okkur eins og náttúran gerir. Zero Waste er aðferðarfræði sem hjálpar okkur við að komast á þennan stað þar sem engu er sóað.

Hvers vegna skiptir máli að innleiða hringrásarhagkerfi?
Til að varðveita efni og orku í heimi sem býr yfir takmörkuðum auðlindum. Ef við værum bara einn milljarður myndi þetta kannski ekki skipta miklu máli, en mannkynið samanstendur af um 7,5 milljarða manna og stefnir í 11 milljarða og framboð af efni og landsvæði til ræktunar er að verða takmarkað. Eins og áður sagði lifum við í línulegu hagkerfi þar sem sóun einkennir neyslu okkar. Ef við skoðum t.d. framleiðsluferli matvæla þá er sóun í allri keðjunni, frá framleiðslu þar sem matvara þarf að líta út á ákveðin hátt (restinni er hent) til dreifingar þar sem verslanir reyna að hafa bara ferskt og girnilegt matarframboð (aftur er restinni er hent) til heimila þar sem keypt er inn ofgnótt og þegar matvaran er orðin ljót þá er henni hent. Sóun einkennir svo mikið hegðun okkar þegar við erum í þessu línulega hagkerfi. Afleiðingin af þessari sóun sem kallar á mikla framleiðslu er loftslagsmengun. Það er mengun sem verður til við framleiðslu, það þarf að ryðja landsvæði til að rækta sojabaunir til að fæða eldisdýrin okkar, ruðningurinn fer oft fram með brennslu á skóglendi í Amazon sem veldur mikilli losun, matvælaframleiðsla, sérstaklega af dýraeldi, framleiðir mikið magn af gróðurhúsalofttegundum, flutningur matvæla heimshornanna á milli framleiðir líka mikla losun sem og urðun á öllum þessum matvælum. Þannig að sóun á efni og orku einkennir línulega hagkerfið, og þess vegna skiptir svo miklu máli að innleiða hringrásarhagkerfið til að viðhalda þessum auðlindum.

Ljósmynd/Ingunn Jónsdóttir

Hvers vegna varð Hveragerði fyrir valinu?
Árið 2019 vann SASS samantekt á úrgangsmálum sveitarfélaga á Suðurlandi. Tekið var saman magn úrgangs og kostnaðinn við málaflokkinn. Hveragerði kom best út í samanburðinum þar sem 56% úrgangsins fór í urðun, öll hin sveitarfélögin voru með hærri urðunarhlutfall. Út af þessum árangri var haft samband við Hveragerði og þau beðin um að taka þátt, sem þau tóku fagnandi.

Hvert er markmið verkefnisins og hvernig ætlið þið að ná þeim markmiðum?
Stóra markmið íslenska hluta verkefnisins er að minnka óflokkaðan heimilisúrgang í Hveragerði um 10% fyrir árslok 2021. En undirmarkmið verkefnisins á Evrópska vísu er að útbúa einhverskonar verkfærakistu fyrir samfélög sem nýtist þeim við að finna sameiginlegar lausnir á flóknum áskorunum sem á ensku kallast „wicked problems“ en það eru alls kyns áskoranir sem öll samfélög þurfa að takast á við og ekki hafa einhverja eina rétta lausn. Hér erum við að reyna að nýta aðferðarfræði samsköpunar og lifandi rannsóknarstofa til þess að finna og prufa lausnir í samtali og samstarfi við þá sem áskorunin beinist að – þ.e. hinum almenna íbúa.

Hvar er hægt að kynnast þessu verkefni betur?
Verkefnið er til tveggja ára og heldur úti heimasíðu um verkefnið auk þess að vera með Facebooksíðu þar sem styttri fréttum af gangi mála er miðlað. Íslenski hlutinn er auk þess mjög virkur innan Hveragerðis þar sem íbúar þar eru markhópurinn og mestur kraftur verður settur í að fá þá til liðs við verkefnið enda má segja að það standi og falli með skilningi og þátttöku íbúanna sjálfra. Íslensku niðurstöðurnar verða svo kynntar á íbúafundi haustið 2021 en auk þess verður lokaráðstefna verkefnisins haldin á Íslandi vorið 2022.

Ingunn Jónsdóttir og Elísabet Björney Lárusdóttir

Ljósmynd/Ingunn Jónsdóttir
Fyrri greinEva Lind framlengir samning við Selfoss
Næsta greinSunnlenskir unglingar eiga eftir að blómstra í Skjálftanum