Það sem einkennt hefur uppbyggingu á menningarstarfsemi víðsvegar um Ísland á undanförnum áratugum – á stöðum eins og Stöðvarfirði, Akureyri, Ísafirði, Hvammstanga og Skagaströnd svo nokkur dæmi séu tekin – er að margvíslegt menningarstarf hefur fengið að skjóta rótum í yfirgefnum eða vannýttum byggingum þessara bæja. Áhrifin hafa verið – í fáum orðum sagt – stórkostleg. Það sem skýtur rótum sem lítið fræ er innan tíðar orðð að fjölskrúðugum og litfögrum garði sem laðar að sér gesti. Og sumir þeirra setjast jafnvel að í næstu görðum.
Að setja þessa blómlegu rækt í samhengi við þróun og þroska sveitarfélagsins Árborgar er okkur talsvert hugðarefni. Enda höfum við komið nálægt menningarstarfi í Árborg í gegnum tíðina. Hér er vissulega frábær tónlistarskóli, leikhús á bökkum árinnar, nýinnréttuð aðstaða byggðasafnsins á Eyrarbakka, kirkjur og kaffihús. Við gerum ekki lítið úr því. En hvar er hið sameiginlega rými þar sem vinnustofur, sýningarsalir fyrir margskonar uppákomur, aðstaða fyrir tónleika og kvikmyndahald kemur saman? Hvar geta nemendur listabrautar unnið og skapað að námi loknu, haldið sýningar eða tónleika? Hvar getum við tekið á móti erlendum listamönnum til tímabundinnar dvalar?
Sveitarfélagið þarf líka að eiga í virku samtali við grasrót listamanna. Og það samtal þarf vissulega að snúast um aðstöðu en ekki síður um það að móta menningarstefnu og fylgja henni eftir. Ein leið í þeim markmiðum er að velja okkur reglulega bæjarlistamann sem gæti falist í starfslaunum frá þremur til tólf mánuða. Fjölmargir listamenn þessa sveitarfélags fá lítinn sem engan stuðning. Listamenn sveitarfélagsins verða að fá hvatningu og stuðning.
Ávinningurinn er ótvíræður fyrir listsköpunina, listamennina, gesti sem eiga leið um Árborg og íbúa svæðisins. Þetta er einmitt það sem hefur sýnt sig víðsvegar um land. Menningarstarfsemi hefur óbein áhrif á allt nærumhverfi sitt og dregur til sín fjölbreytta atvinnustarfsemi líka. Þannig er hún eins og stóriðja. Ólík þeirri stóriðju sem helst hefur verið vinsæl á Íslandi þá er þessi stóriðja hvorki mengandi né ofurseld heimskapítalismanum. Hún er valdeflandi, sjálfsmyndarstyrkjandi vítamínbomba sem lyftir okkur áfram og tengir okkur saman og við okkur sjálf. Slagorðið er: Húsnæði undir listir og veljum bæjarlistamann Árborgar.
Jón Özur Snorrason
3. sæti á lista Vinstri grænna í Árborg
Pétur Már Guðmundsson
6. sæti á lista Vinstri grænna í Árborg